„Við teljum að þessi launahækkun hafi ekki komið fram á réttum tíma og það hefði kannski átt að hækka laun einhverra annarra,“ segir Lilja Árnadóttir, formaður starfsmannafélags Landspítalans.
Mikil óánægja er meðal hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á Landspítalanum vegna hækkunar á launum forstjóra sjúkrahússins og hafa uppsagnir verið nefndar í þessu sambandi.
„Landspítalinn er láglaunastofnun þar sem vel menntað fólk vinnur á lægri launum en á almennum vinnumarkaði,“ segir Lilja. „Það er flótti úr heilbrigðisstéttunum, fólk er að fara úr landi, bæði til að vinna tímabundið og til þess að setjast að. Ástæðan er fyrst og fremst launamál og það er atgervisflótti úr öllum stéttum á spítalanum.“
Hún segir stjórn starfsmannafélagsins hafa áhyggjur af líðan starfsmannanna. „Það er undirmönnun á öllum deildum, það má ekki vinna yfirvinnu og við höfum orðið fyrir ýmsum skerðingum. Fólk er búið að leggja miklu meira fram en eðlilegt getur verið.“
Er hækkun á launum forstjóra sjúkrahússins rökrétt ákvörðun í slíku ástandi? „Okkur finnst hún að minnsta kosti ekki vera á réttum tíma, það er óhætt að segja það. Kannski hefði mátt byrja einhvers staðar annars staðar,“ segir Lilja.
Frétt mbl.is: „Launahækkunin er hneyksli“