Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki boðið Tannlæknafélagi Íslands almenna samninga um tannlækningar í tíu ár, eða frá árinu 2002. Þar sem ekki hafa verið samningar í mjög langan tíma þyrfti ríkið að hækka sína verðskrá frá 2002, sem núverandi endurgreiðsla miðast við, allverulega.
„Því hafa þeir freistast til að gera ekki neitt og komist upp með það, því miður,“ segir Stefán Hallur Jónsson, varaformaður Tannlæknafélags Íslands.
Í fréttum mbl.is hefur verið sagt frá þeim mun sem er á milli þeirrar gjaldskrár tannlækna sem birt er á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands, SÍ og notuð er við ákvörðun endurgreiðslu og þess verðs sem tannlæknar taka fyrir þjónustu sína, en munurinn er umtalsverður. Steingrímur Ari Arason, forstjóri SÍ, segir að verðlag tannlækna sé afar mismunandi, en verðskrá SÍ sé í samræmi við verðskrá sumra tannlækna.
Neytandinn hefur val
Stefán Hallur segir að vissulega sé verðlagning tannlækna mismunandi. „En í sömu andrá og kvartað er yfir því, má segja að „samkeppnin á markaðnum“ sé virk og neytandinn hafi rúmt val um mismunandi dýra meðferð. Vandi neytandans snýst síðan um hvernig hann á að nálgast upplýsingar um lægsta verðið, en það sama á við ef ég ætla að kaupa mér ný dekk undir bílinn minn sem dæmi,“ segir Stefán Hallur.
„Árið 1998 rann samningur milli Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunar Íslands út og nýr samningur með gjaldskrá sem TR samdi einhliða var gerður árið 2002,“ segir Stefán Hallur.
Fjárheimild ekki kláruð
„Vegna gríðarlegrar óánægju tannlækna með uppsetningu gjaldliða og verðlagningar þeirra, sögðu tannlæknar samningnum upp 9 mánuðum síðar. Enginn samningur hefur verið síðan þá um almennar tannlækningar milli aðilanna. Þessi gjaldskrá TR (nú SÍ) gengur undir nafninu Ráðherragjaldskrá SÍ fyrir tannlækningar. Gjaldliðir hennar tóku verðbreytingum í nóvember árið 2004 og nam hækkunin þá 4%. Síðan hefur þessi verðskrá ekki verið hækkuð í tæp átta ár og er enn í gildi fyrir alla tryggða nema börn (öryrkja og ellilífeyrisþega) en nú í sumar var þessi gjaldskrá hækkuð um 50% til áramóta fyrir börn,“ segir Stefán Hallur.
Hann segir ástæðu þess vera þá að undanfarin 6-8 ár hafi fjárheimild SÍ ekki klárast um áramót. Um sé að ræða 250-300 milljónir á hverju ári sem átti að nota í tannviðgerðir eða forvarnir fyrir tryggða, samkvæmt lögum frá Alþingi.
„Því var nú í vor kallaður saman starfshópur sem starfar á vegum velferðarráðuneytisins og lagði til við ráðherra að hækka Ráðherragjaldskrá fyrir börn um 50% til þess að ná að eyða þessum fjárheimildum SÍ. Hækkunin tók mið af því hvað miklir peningar væru eftir og snerist ekki að neinu leyti um hvað verðskrár tannlækna eru háar eða lágar,“ segir Stefán Hallur.