Erfitt yrði að beita Ísland refsiaðgerðum

Fánar Evrópusambandsríkjanna fyrir utan Evrópuþingið
Fánar Evrópusambandsríkjanna fyrir utan Evrópuþingið AFP

Erfitt gæti reynst fyrir Evrópusambandið að beita Íslendinga refsiaðgerðum vegna makríldeilunnar í ljósi þess hversu háð ríki sambandsins eru íslenskum fiski, sérstaklega þorski. Þetta kemur fram á fréttavef írska dagblaðsins Irish Times í dag.

Eins og fjallað hefur verið um á mbl.is samþykkti Evrópuþingið í gær nær einróma lagasetningu sem veitir Evrópusambandinu heimild til þess að beita þau ríki víðfemum refsiaðgerðum sem það telur stunda ósjálfbærar fiskveiðar.

Meðal þess sem heimildirnar kveða á um er að Evrópusambandið geti bannað löndun á afla úr öllum fiskistofnum sem deila sama vistkerfi og fiskistofninn sem sambandið telur að sé nýttur á ósjálfbæran hátt og deilur standa um.

Þessu hafa íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðilar harðlega mótmælt og sagt að ef gripið yrði til slíkra refsiaðgerða af hálfu Evrópusambandsins myndu þær brjóta gegn alþjóðlegum samningum og milliríkjasamningum sem Ísland og sambandið eiga aðild að og þar á meðal samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Frumkvæðið að lagasetningunni átti írski Evrópuþingmaðurinn Pat Gallagher, sem einnig er annar formaður sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins vegna umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið, og fagnar hann samþykkt hennar í frétt Irish Times. Ennfremur segist hann vilja veita deiluaðilum eitt tækifæri enn til þess að finna lausn á deilunni.

Sjávarútvegsráðherra Skotlands, Richard Lochhead, fagnar einnig samþykkt lagasetningarinnar á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC. Þar segist hann vona að hún verði til þess að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins nýti þessar heimildir sem fyrst.

Ian Gatt, framkvæmdastjóri samtaka skoskra uppsjávarsjómanna, tekur í sama streng og Lochhead. Vonandi leiði samþykkt Evrópuþingsins til þess að Íslendingar og Færeyingar viðurkenni hversu alvarleg staðan sé og komi aftur að samningaborðinu og taki þátt í viðræðunum með það að markmiði að finna lausn á makríldeilunni.

Frétt Irish Times

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert