Eymundsson semur við útgáfufélag um rafbækur

Eymundsson hefur gert samning við Hachette Book Group, eitt stærsta útgáfufélag í Evrópu, um sölu á erlendum rafbókum.

Í kjölfar þessa samnings hafa Íslendingar nú aðgang að rúmlega 240.000 erlendum rafbókatitlum í gegnum vef fyrirtækisins www.eymundsson.is. Með samningnum við Hachette getur Eymundsson nú boðið til sölu nýjustu erlendu titlana jafnóðum og þeir raða sér á vinsældalista, segir í fréttatilkynningu. Fjöldi seldra rafbóka á eymundsson.is síðustu daga hefur verið meiri en fjöldi hefðbundinna bóka í mörgum af verslunum Eymundsson um land allt en verslanir Eymundsson eru 14 talsins. Jafnframt seljast fleiri rafbækur á vefnum en hefðbundnar eftir að samningurinn við Hachette tók gildi.

„Verðið á erlendum rafbókum stenst samanburð við stóru erlendu aðilana á rafbókamarkaðnum og má þá nefna sem dæmi hina vinsælu bók Fifty Shades Of Grey sem núna fæst á 789 krónur. Þess má geta að öll verð á www.eymundsson.is eru í íslenskum krónum og innihalda íslenskan virðisaukaskatt. Að auki býðst kaupendum erlendra rafbóka nú að versla við íslenskt fyrirtæki með aðgangi að tækniaðstoð og traustum kortaviðskiptum hvort sem er með kredit eða debetkortum,“ segir í tilkynningunni.

 Í farvatninu eru fleiri samningar við erlenda útgefendur og dreifingaraðila ásamt íslenskum forlögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert