Griðasvæði hvala í Faxaflóa verður stækkað ef þingsályktunartillaga sem lögð var fyrir Alþingi í dag gengur eftir. Enn fremur að tryggt verði griðasvæði hvala fyrir Norðurlandi, þar sem hvalaskoðun er vaxandi atvinnugrein. Hvalaskoðunarmenn segja hrefnum hafa fækkað og dýrin séu fælnari vegna veiða.
Yfir 70.000 ferðamenn fara á þessu ári í hvalaskoðun frá Reykjavík og um 60.000 frá Norðurlandi. Hvalaskoðun er þannig orðin ein mikilvægasta grein ferðaþjónustu hér á landi, að því er segir í greinargerð með tillögu þeirra Marðar Árnasonar, Birgittu Jónsdóttur og Árna Þórs Sigurðssonar.
„Líklegt er að verið sé að fórna miklum hagsmunum fyrir litla með veiðum á helstu skoðunarslóðum hrefnu og annarra hvala,“ segir í tillögunni. Vegna augljóss mikilvægis hvalaskoðunar í ferðaþjónustu leggja þingmennirnir því til að Faxaflóinn allur verði gerður að griðasvæði fyrir hvali, frá Eldey í suðri að ysta odda Snæfellsness í norðri og að samsvarandi griðasvæði hvala fyrir Norðurlandi verði tryggt. Jafnframt að heildstæðar reglur verði settar um framkvæmd og skipulag hvalaskoðunar.