Nauðsynlegt er að treysta undirstöður Reykjavíkur sem höfuðborgar svo almenningur og forustumenn í borg og ríki geri sér grein fyrir skyldum og réttindum sem fylgi höfuðborgarhlutverkinu, þ.á m. á samgöngusviði. Svo segir í tillögu til þingsályktunar um höfuðborg Íslands sem lögð var fram á Alþingi.
Mörður Árnason er fyrsti flutningsmaður tillögunnar, þess efnis að Alþingi feli forsætisráðherra að ganga til viðræðna við borgarstjórann í Reykjavík um eins konar „höfuðborgarsamning“, þar sem fram komi skyldur og réttindi Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar Íslands. Bent er á að þótt allir viti að höfuðborg Íslendinga sé Reykjavík sé óljóst „hvert inntak þeirrar vegsemdar er“ þar sem hvergi sé um það fjallað í lögum.
Kveikjan að tillögunni virðist vera umræður og átök um Reykjavíkurflugvöll undanfarna áratugi. „Ákvarðanir og tillögur um flutning ýmiss konar stjórnsýslustöðva út á land hefur ekki síður skort þá umgjörð sem falist gæti í skýrri sýn á höfuðborgarhlutverkið á okkar tímum,“ segir í tillögunni.
Tillagan var áður flutt á 139. og 140. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Umsagnir hafa borist um hana m.a. frá Byggðastofnun, Reykjavíkurborg og Samtökum um betri byggð.