Segir stjórnarflokkana horfa til Framsóknar

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, bar upp bónorð við Framsóknarflokkinn í ræðu sinni á Alþingi í gærkvöld í kjölfar stefnuræðu forsætisráðherra. Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, á heimasíðu sinni í dag.

Steingrímur sagðist í lok ræðu sinnar telja að aðrir stjórnmálaflokkar og framboð ættu að sameinast um það að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn yrði áfram í stjórnarandstöðu í það minnsta út næsta kjörtímabil. Óli Björn segir að ætli Samfylkingin og VG að vera áfram í ríkisstjórn að loknum þingkosningunum næsta vor sé eina leiðin samstarf við framsóknarmenn miðað við skoðanakannanir.

„Við eigum eftir að heyra bónorðið borið upp aftur og ítrekað í aðdraganda kosninga. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar munu verða blíðlyndir í garð Maddömunnar [Framsóknarflokksins]. Spjótunum verður beint að Sjálfstæðisflokknum og stjórnarliðar munu ganga hart fram. Fyrir nokkra þingmenn Framsóknarflokkinn verður freistingin til að taka þátt í atlögunni að íhaldinu of mikil til að þeir geti staðist hana,“ segir Óli Björn.

Hann segir að þessi taktík sé skynsamleg enda bendi ýmislegt til þess að framsóknarmenn séu reiðubúnir í slíkt samstarf. Þannig hafi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, reynt að fjarlægjast Sjálfstæðisflokkinn undanfarnar vikur, meðal annars með harðri gagnrýni á frjálshyggju. Þá sé við því að búast að vinstriöflin í flokknum muni beita sér fyrir samstarfi við núverandi ríkisstjórnarflokka.

„Til að koma í veg fyrir vinstristjórn eftir kosningum með þátttöku Framsóknarflokksins, verður Sjálfstæðisflokkurinn að fá a.m.k. 26 þingmenn kjörna á þing. Og það er langt í frá útilokað ef flokknum tekst vel upp í starfi sínum á næstu mánuðum,“ segir Óli Björn og bætir því við að ljóst sé að sjálfstæðismenn verði að bretta upp ermarnar.

Grein Óla Björns Kárasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert