Formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, bar upp bónorð við Framsóknarflokkinn í ræðu sinni á Alþingi í gærkvöld í kjölfar stefnuræðu forsætisráðherra. Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, á heimasíðu sinni í dag.
Steingrímur sagðist í lok ræðu sinnar telja að aðrir stjórnmálaflokkar og framboð ættu að sameinast um það að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn yrði áfram í stjórnarandstöðu í það minnsta út næsta kjörtímabil. Óli Björn segir að ætli Samfylkingin og VG að vera áfram í ríkisstjórn að loknum þingkosningunum næsta vor sé eina leiðin samstarf við framsóknarmenn miðað við skoðanakannanir.
„Við eigum eftir að heyra bónorðið borið upp aftur og ítrekað í aðdraganda kosninga. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar munu verða blíðlyndir í garð Maddömunnar [Framsóknarflokksins]. Spjótunum verður beint að Sjálfstæðisflokknum og stjórnarliðar munu ganga hart fram. Fyrir nokkra þingmenn Framsóknarflokkinn verður freistingin til að taka þátt í atlögunni að íhaldinu of mikil til að þeir geti staðist hana,“ segir Óli Björn.
Hann segir að þessi taktík sé skynsamleg enda bendi ýmislegt til þess að framsóknarmenn séu reiðubúnir í slíkt samstarf. Þannig hafi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, reynt að fjarlægjast Sjálfstæðisflokkinn undanfarnar vikur, meðal annars með harðri gagnrýni á frjálshyggju. Þá sé við því að búast að vinstriöflin í flokknum muni beita sér fyrir samstarfi við núverandi ríkisstjórnarflokka.
„Til að koma í veg fyrir vinstristjórn eftir kosningum með þátttöku Framsóknarflokksins, verður Sjálfstæðisflokkurinn að fá a.m.k. 26 þingmenn kjörna á þing. Og það er langt í frá útilokað ef flokknum tekst vel upp í starfi sínum á næstu mánuðum,“ segir Óli Björn og bætir því við að ljóst sé að sjálfstæðismenn verði að bretta upp ermarnar.