Talaði Jóhanna um ESB-umsóknina?

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, flytur stefnuræðu sína í gærkvöldi.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, flytur stefnuræðu sína í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn

Ekki virðast allir á einu máli um það hvort Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi rætt um umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið í stefnuræðu sinni sem hún flutti á Alþingi í gærkvöldi.

Þannig var haft eftir Þorsteini Pálssyni, fyrrverandi forsætisráðherra og fulltrúa í samninganefnd Íslands, á fréttavefnum Vísir.is í gærkvöldi að athygli vekti að Jóhanna hefði ekki minnst á aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið í þessari síðustu stefnuræðu sinni á kjörtímabilinu.

Þorsteinn sagði ennfremur að þetta benti ekki til þess að Jóhanna setti stefnuna á Evrópusambandið. Hún hefði ekki gefið til kynna í ræðunni að málið væri á dagskrá. Sjálf sagðist Jóhanna hafa minnst á Evrópusambandið og mikilvægi þess í tíufréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi þó hún virtist ekki vilja tala um aðildarviðræðurnar sem slíkar í því sambandi.

Í stefnuræðunni skírskotaði Jóhanna á einum stað óbeint til umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið þar sem hún ræddi um afnám gjaldeyrishafta, áætlun Seðlabanka Íslands í þeim efnum og gagnrýni sem komið hefði á hana.

„Samráðshópur með aðild Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins fer nú yfir mögulegar leiðir til að flýta þessu ferli. Spurningin um framtíðargjaldmiðil þjóðarinnar og mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu spilar síðan sterkt inn í þessa mikilvægu umræðu,“ sagði Jóhanna í ræðu sinni.

Þannig er ljóst að Jóhanna nefndi hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið til sögunnar í stefnuræðunni í tengslum við afnám gjaldeyrishafta en minntist á hinn bóginn ekki á umsóknina um inngöngu í sambandið sem sjálfstætt stefnumál eða lagði áherslu á mikilvægi málsins að öðru leyti en í tengslum við afnám haftanna.

Stefnuræða forsætisráðherra í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert