Tveir björgunarsveitarmenn meiddust við leit

Um 70 manns frá björgunarsveitum verða í fjárleit á Þeistareykjasvæðinu og Mývatnssveit í dag. Flestir þeirra eru af Austfjörðum og höfuðborgarsvæðinu en tekin var ákvörðun um að heimamenn færu í hvíld. Þeirra bíða erfið verkefni næstu daga en koma þarf fénu til byggða fljótlega. Margir hafa þó tekið þá ákvörðun að mæta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.

Vonast er til að hægt sé að klára fyrsta fasa leitaraðgerðanna í dag, þ.e. að koma þvi fé sem hægt er að sjá og finna í hólf.

Vinna á svæðinu gekk ágætlega í gær miðað við aðstæður. Eins og áður hefur komið fram getur það verið hættulegt, hraun og gjótur undir djúpum snjónum.

Tveir hópar björgunarsveitafólks munu aðstoða bændur í fjárleit og smölun í Hörgárdal í dag. Í Bakkárdal verða bíll og sleðar en í Flögudal verða sendir göngumenn. Búist er við að fleiri verkefni komi á borð björgunarsveita í dag og eitthvað er komið af aðstoðarbeiðnum fyrir morgundaginn. Aðstæður til leitar eru erfiðar, leitarfólk á fæti sekkur í snjó upp að hnjám og jafnvel mitti og kemst því hægt yfir. Veðrið hjálpar ekki til en lágskýjað er og rigning.

Tveir björgunarsveitamenn meiddust við leitina í gær; annar þeirra velti yfir sig fjórhjóli. Hann slasaðist ekki alvarlega en er lemstraður og hinn handleggsbrotnaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert