„Erum að íhuga frekari refsiaðgerðir“

Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs. SCANPIX

„Ég er auðvitað von­svik­in yfir því að okk­ur tókst ekki að ná sam­komu­lagi í London. Bæði Nor­eg­ur og Evr­ópu­sam­bandið hafa verið sveigj­an­leg og hafa sett fram mörg og upp­færð til­boð. Því miður hafa hvorki Íslend­ing­ar né Fær­ey­ing­ar sýnt nokk­urn vilja til þess að koma til móts við það af sinni hálfu,“ seg­ir Lis­beth Berg-Han­sen, sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Nor­egs, í sam­tali við mbl.is aðspurð um viðbrögð henn­ar vegna niður­stöðu ráðherra­fund­ar­ins í London í byrj­un þessa mánaðar þar sem þess var freistað að ná sam­komu­lagi vegna mak­ríl­deil­unn­ar.

Berg-Han­sen legg­ur áherslu á að  hún geri ekki at­huga­semd við það að Ísland eigi lög­verndaðan rétt til tak­markaðrar hlut­deild­ar í mak­ríl­stofn­in­um. Vanda­málið sé hins veg­ar að krafa Íslend­inga og sú hlut­deild sem þeir hafi tekið sér ein­hliða sé miklu hærri en hægt sé að rétt­læta út frá gengd mak­ríls­ins. Hún seg­ir að leiðandi meg­in­regla við að ákv­arða eign­ar­hald á fiski­stofn­um sé að miða við það hversu lengi hann sé í viðkom­andi lög­sögu að meðaltali á árs­grund­velli og sam­kvæmt gögn­um frá Íslandi sjálfu sé viðver­an sam­kvæmt því ekki nema 5-7%. Einnig sé sögu­leg veiðireynsla Íslend­inga ekki mik­il þegar komi að mak­ríln­um.

„Jafn­vel þó hluti af mak­ríl­stofn­in­um fari í gegn­um ís­lensku lög­sög­una í fá­eina mánuði þá veit­ir það ekki Íslend­ing­um rétt til þess að veiða eins mikið af hon­um og þeir vilja. Ef Evr­ópu­sam­bandið og Nor­eg­ur hefðu fylgt form­dæmi Íslands væri búið að út­rýma mak­ríl­stofn­in­um núna. Hlut­deild í fiski­stofni get­ur ekki byggst á því hversu mikið sé mögu­legt að veiða úr hon­um með há­marks getu,“ seg­ir Berg-Han­sen.

Spurð að því hvort hún telji að frek­ari viðræður séu lík­leg­ar til þess að skila ár­angri seg­ir hún fund­ur strand­ríkj­anna 22.-24. októ­ber næst­kom­andi feli í sér annað tæki­færi til þess að reyna að finna sam­eig­in­lega lausn á deil­unni.

„Ég hef ekki tekið neina loka­ákvörðun í þeim efn­um enn,“ seg­ir ráðherr­ann spurður að því hvað hún telji að Nor­eg­ur og Evr­ópu­sam­bandið eigi að gera ef frek­ari viðræður skila ekki ár­angri. Spurð að því hvaða hugs­an­legu aðgerða norsk stjórn­völd kunni að grípa til gagn­vart Íslandi og Fær­eyj­um ef ekki semst seg­ir Berg-Han­sen:

„Fyrst vil ég taka það fram að ég held enn í von­ina um að hægt verði að kom­ast hjá því að beita refsiaðgerðum. Þess vegna höfðum við Maria Dam­anaki, sjáv­ar­út­vegs­stjóri Evr­ópu­sam­bands­ins, frum­kvæði að því í júlí að kannað yrði hvort mögu­legt væri kom­ast út úr þeirra sjálf­heldu sem málið er núna í. Hins veg­ar, eins og ég hef áður sagt, þá erum við að íhuga frek­ari refsiaðgerðir og þar á meðal til dæm­is viðskipta­leg­ar aðgerðir og frek­ari aðgerðir tengd­ar sjáv­ar­út­vegi. Um­fang og eðli frek­ari aðgerða hef­ur hins veg­ar ekki verið ákveðið. En við fylgj­umst náið með þeirri vinnu Evr­ópu­sam­bands­ins að koma sér upp nýj­um leiðum til þess að beita refsiaðgerðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert