Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013, sem lagt var fram á Alþingi fyrr í þessari viku, er gífurleg vonbrigði fyrir Samtök verslunar og þjónustu, SVÞ, þar sem frumvarpið fer í veigamiklum atriðum gegn helstu baráttumálum samtakanna. Þetta kemur fram í fréttabréfi samtakanna.
„Þau áform stjórnvalda að hækka tryggingagjaldið, nú þegar allar forsendur eru til þess að lækka það umtalsvert mega ekki ganga eftir. Fyrirtæki í verslun og þjónustu bera flest hver hlutfallslega háan launakostnað og því er hlutur tryggingagjaldsins mikill og torveldar fyrirtækjum í þessum atvinnugreinum að standa undir þeim kjarasamningum sem gerðir voru, hvað þá að fjölga starfsfólki,“ segir m.a. í fréttabréfinu.