„Þessari stóru leit er að ljúka, en björgunarsveitir verða engu að síður viðbúnar því að aðstoða áfram og sinna aðstoðarbeiðnum. Það hefur gengið ágætlega í dag, en aðstæður eru nokkuð erfiðar; þoka og blautur snjór og svo er svæðið erfitt yfirferðar,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, um fjárleit á Þeistareykjasvæðinu í dag.
„Þeir hafa fyrst og fremst verið að koma fénu úr hættu, og hafa minna verið að grafa upp. Núna er lögð áhersla á að koma fénu saman í hólf þannig að það sé á öruggu svæði. Féð fær að hvíla sig þar og verður væntanlega rekið heim á morgun.“
Ólöf segir að verið sé að ryðja slóð sem reka eigi féð eftir, því afar snjóþungt sé á þessum slóðum.
„Það hafa komið nokkrar leitarbeiðnir fyrir morgundaginn, en að öðru leyti verður líklega ekki mikil leit í gangi á morgun. Svo verður réttað á sunnudaginn.“
Ekki vitað um heimtur
Spurð um heimtur á fé segir Ólöf engar tölur handbærar um það. „Það er engin yfirsýn, það tekur töluverðan tíma að átta sig á ástandinu. En menn sögðu að það hefði komið meira ofan af Þeistareykjum en þeir þorðu að vona.“
Hún segir afar góða samvinnu hafa verið á milli björgunarsveita, bænda og íbúa á svæðinu. Allir hafi lagst á eitt við þetta umfangsmikla verkefni. „Þeir 70 björgunarsveitarmenn sem komu af höfuðborgarsvæðinu til aðstoðar fara væntanlega til síns heima í kvöld. En það var líka mikið af björgunarsveitarfólki af Austfjörðum og Norðausturlandi.“
En fjár var leitað víðar í dag. „Við vorum með tvo hópa að leita í dag á Norðurlandi; í Hörgárdal, Bárðardal, Barkardal og Flögudal. En þeir eru meira í að smala,“ segir Ólöf.