Framsóknarmenn munu á næstu dögum leggja fram þingsályktunartillögu þar sem lagt verður til að afborganir af verðtryggðum fasteignalánum komi til frádráttar tekjuskattsstofni og að afslátturinn verði lagður inn á höfuðstól viðkomandi fasteignalána.
Þetta mun skapa svigrúm fyrir heimilin til að verða aftur virkir þátttakendur í efnahagslífinu, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, í Morgunblaðinu í dag. Tillagan miði að því að létta undir með þeim sem hafi reynt að standa í skilum en ekkert hafi verið komið til móts við hingað til.
„Við lítum svo á að meginfyrirstaðan í efnahagslífinu núna sé skuldastaðan og þar af leiðandi sé það grunnforsenda fyrir því að hér verði heilbrigt efnahagslíf til langtíma að tekið verði á henni,“ segir Sigmundur.