„Ég útiloka þann flokk algjörlega,“ segir Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, spurður hvort til greina komi að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki eftir næstu kosningar. Þetta kemur fram í viðtali við hann á vef Vikudags.
Þar kemur ennfremur fram að Vinstri-græn í Norðausturkjördæmi hafa ekki ákveðið formlega hvernig staðið verður að uppstillingu á framboðslista flokksins við næstu alþingiskosningar. Flokkurinn er nú með þrjá þingmenn í kjördæminu. Steingrímur J. Sigfússon fór fyrir listanum síðast. Þuríður Bachmann, sem var í öðru sæti, hefur tilkynnt að hún ætli ekki að sækjast eftir endurkjöri. Björn Valur Gíslason skipaði þriðja sæti og segist ekki vera búinn að taka ákvörðun um framboð.
„Auðvitað hefur maður velt þessu öllu saman fyrir sér, en ég get ekki sagt af eða á á þessari stundu,“ segir hann við Vikudag.
Hann segir að í komandi kosningabaráttu verði árangur núverandi ríkisstjórnar veginn og metinn. Ekki komi til greina að Vinstri-græn starfi með Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili. „Nei, það get ég ómögulega séð fyrir mér, miðað við stefnu Sjálfstæðisflokksins í dag, sem er sú sama og fyrir fimm árum. Þannig að ég útiloka þann flokk algjörlega.“