Málþing stendur nú yfir í Laugardalshöll þar sem þess er minnst að 40 ár eru frá Einvígi aldarinnar þegar Boris Spasskí og Robert Fischer tefldu um heimsmeistaratitilinn í skák í Reykjavík árið 1972 en málþingið hófst klukkan 11. Að því standa Skáksamband Íslands og Reykjavíkurborg.
Farið verður yfir einvígið frá mörgum hliðum á málþinginu meðal annars af stórmeisturunum Friðriki Ólafssyni og Helga Ólafssyni. Þá flytja Eric Green, staðgengill sendiherra Bandaríkjanna, og Andrei Melnikov, sendiráðsritari í rússneska sendiráðinu, ávörp.
Klukkan 13 hefst síðan risaskákmót fyrir börn á grunnskólaaldri og skákmenn 60 ára og eldri. Þar verður keppt í fjórum aldursflokkum barna og fá allir keppendur sérhannaðan bol í tilefni dagsins. „Nú þegar eru um 250 börn skráð til leiks. Fimm efstu í hverjum flokki frá verðlaun og auk þess verður haldið happdrætti með fjölda vinninga, þar sem m.a. eru flugseðlar í verðlaun,“ segir í tilkynningu.
Þá verða ýmsir munir úr einvíginu til sýnis auk þess sem lifandi myndir frá atburðinum verða sýndar. Þátttaka í hátíðinni er ókeypis og allir velkomnir segir ennfremur í tilkynningunni.