Verið er að ýta Evrópumálunum til hliðar í íslenskum stjórnmálum að mati Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og fulltrúa í samninganefnd Íslands vegna umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið.
Þetta kemur fram í grein sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag en þar segir hann meðal annars að formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, komi nú fram sem pólitískur leiðtogi ríkisstjórnarsamstarfsins og bjóði Framsóknarflokknum að taka þátt í að útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá ríkisstjórnarþátttöku.
Þorsteinn segir Steingrím geta þetta vegna þeirrar tilslökunar í Evrópumálum sem hafi átt sér stað hjá formanni Samfylkingarinnar, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. „Sú málefnalega sveigja ræðst alfarið af því að vinstri armurinn hefur nú bæði tögl og hagldir í flokknum. Þetta þýðir að í Samfylkingunni er verið að ýta þeim til hliðar sem vilja að heildarefnahagsstefnan ráðist af markmiðinu um upptöku evru,“ segir Þorsteinn.
Þá segir hann að í Sjálfstæðisflokknum sé verið að ýta þeim til hliðar sem vilja ljúka aðildarviðræðunum við Evrópusambandið og þegar sé búið að því innan Framsóknarflokksins.