Ný stjórn UVG á höfuðborgarsvæðinu

Helgi Hrafn Ólafsson er nýr formaður Ungra vinstri grænna á …
Helgi Hrafn Ólafsson er nýr formaður Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/HHÓ

Aðalfundur Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu var haldinn í gær. Á fundinum var kjörin ný stjórn, og var Helgi Hrafn Ólafsson kjörinn nýr formaður hreyfingarinnar. Þá voru einnig samþykktar fjórar ályktanir á fundinum.

Hina nýju stjórn skipa: Helgi Hrafn Ólafsson, formaður, Tinna Ingólfsdóttir, Jónas Roy Bjarnason, Rakel Guðmundsdóttir og Bergljót María Sigurðardóttir. Varamenn eru þau Bjartur Steingrímsson, Björn Reynir Halldórsson og Una Hildardóttir.

Ályktanir fundarins

Sem fyrr sagði sendi aðalfundurinn frá sér fjórar ályktanir. Í þeirri fyrstu, sem fjallaði um endurskipulagningu húsnæðiskerfisins, sagði að samastaður væri ein af grunnþörfum sérhverrar manneskju og þess vegna yrði húsnæðiskerfið að taka mið af því og hugsast út frá þjónustusjónarmiði en ekki markaðssjónarmiðum. „Stóraukin aðkoma ríkis og sveitarfélaga að leigumarkaði myndi því ekki einungis fjölga kostum leigjenda á leiguhúsnæði á betri kjörum, heldur einnig ýta á einkaaðila að lækka verð á því húsnæði sem þeir bjóða upp á.“

Ályktun aðalfundar um almenningssamgöngur ítrekaði þá kröfu hreyfingarinnar að farið yrði í róttækar grundvallarbreytingar á almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Sagði að ótækt væri að grundvallarþjónusta eins og Strætó bs. væri rekin með hagnaðarkröfu á bakinu en byggi á sama tíma við langvarandi skort á opinberum framlögum. Segir í ályktuninni að best væri ef almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu væru ókeypis, í það minnsta fyrir þá samfélagshópa sem hafa ekki miklar ráðstöfunartekjur, t.d. stúdenta, öryrkja, atvinnulausa, aldraða og börn. 

Þriðja ályktun aðalfundarins fagnaði því að nú er loks eftir langa baráttu útlit fyrir að Félag múslima á Íslandi geti reist mosku í Reykjavík og óskaði aðalfundurinn FMÍ velfarnaðar í byggingu moskunnar og vonar að hún gangi sem best og hraðast. Segir að Ung vinstri græn á höfuðborgarsvæðinu voni enn fremur að þessi ályktun verði sú síðasta sem þau muni sjá sér þarft að gefa út vegna mismununar trúfélaga í boði stjórnsýslunnar. Að lokum leggja Ung vinstri græn á höfuðborgarsvæðinu til að ríki og kirkja verði aðskilin.

Fjórða ályktun fundarins lýsti svo yfir ánægju sinni með framlag borgarstjóra Reykjavíkurborgar, Jóns Gnarr, á vogarskálar mannréttindabaráttu undanfarnar vikur. Hefði borgarstjórinn sýnt í orði sem á borði að honum stæði ekki á sama um ástand mannréttinda, og þá sérstaklega tjáningarfrelsis, í Rússlandi sem og stutt mannréttindabaráttu samkynhneigðra bæði hér og í Færeyjum með ráði og dáð.  

Ályktunin lýsti þó einnig yfir „vissri óánægju með starf borgarstjórans á öðrum sviðum“. Segir í ályktuninni: „Samhliða launahækkunum í stjórnsýslunni hefur ekki verið farið í nauðsynlegar aðgerðir hvað varðar almenningssamgöngur, umhverfismál, húsnæðisvanda, málefni útigangsfólks og margt annað sem brýn þörf er fyrir. UVGh skora því á borgarstjórann að sinna starfi sínu í borginni af sama dugnaði og hann sýnir í öðrum mikilvægum málum.“

Merki UVG.
Merki UVG.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka