Ræddu um breytingar á stjórnarskránni

Frá málþinginu í dag.
Frá málþinginu í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samfylkingin hélt opið málþing í dag um breytingar á stjórnarskránni, en í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána 20. október næstkomandi, verður spurt um ákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign, persónukjör, jafnt vægi atkvæða, málskotsréttinn og þjóðkirkjuna. Fjölmennt var á málþinginu sem haldið var í Iðnó og voru nokkrir stjórnlagaráðsfulltrúar á meðal ræðumanna.

Valgerður Bjarnadóttir, formaður skipulags- og eftirlitsnefndar Alþingis, fjallaði um mikilvægi kosninganna. Þá tók Þorvaldur Gylfason, prófessor við HÍ við, og fjallaði um náttúrauðlindir og mikilvægi þess að þær væru í þjóðareigu. 

Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við HÍ, fjallaði um þjóðkirkjuna og sagði að umræðan um hana mætti ekki enda á villigötum. Í erindi sínu fjallaði Katrín Fjeldsted læknir um trú og mannréttindi og Eiríkur Bergmann dósent í Háskólanum á Bifröst fjallaði um persónukjör, mismunandi tegundir þess og vald forseta Íslands.

Þá gerði Ari Teitsson bóndi vægi atkvæða og valddreifingu að umtalsefni í erindi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka