Forkastanlegt að hækka laun eins manns

„Íslenskt heilbrigðisstarfsfólk er eftirsóttir starfskraftar. Læknar koma seinna heim úr sérnámi en áður var vegna kjara og margir okkar hafa farið úr landi,“ segir Ómar Sigurvin, formaður Félags almennra lækna. Félaginu er misboðið vegna þeirrar ákvörðunar velferðarráðherra að hækka laun forstjóra Landspítalans.

Í félaginu eru um 200 læknar, sem eru með lækningaleyfi en eru ekki með sérfræðiréttindi. Þetta eru 15-20% af öllum læknum á landinu. Félagið hélt aðalfund í gær og sendi frá sér ályktun þar sem því er fagnað að velferðarráðherra hafi áttað sig á samkeppnisstöðu íslenskra heilbrigðisstétta og launi vel unnin störf.

Um leið segja félagsmenn sér misboðið vegna þess að gengið sé fram hjá öllu því starfsfólki sem hefur tekist á við aukið álag og skert kjör.

„Það er forkastanlegt að hækka einungis laun eins manns,“ segir í yfirlýsingunni. Spurður að því hvort þar sé átt við hækkun á launum forstjóra Landspítalans segir Ómar svo vera.

Undirmönnun og engin aðlögun

Hann segir mikið álag vera á læknum. „Margar heilbrigðisstofnanir eru undirmannaðar og mönnunarþörf er illa skilgreind. Að auki fá læknar ekki nauðsynlegan aðlögunartíma þegar þeir hefja störf á sjúkahúsunum. Það getur hreinlega ógnað öryggi sjúklinga,“ segir Ómar.

Ómar Sigurvin, formaður Félags almennra lækna.
Ómar Sigurvin, formaður Félags almennra lækna. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert