Blautbolskeppni, sem fyrirhuguð er á skemmtistaðnum Manhattan í Reykjanesbæ í kvöld, hefur vakið misjöfn viðbrögð. Eigandi staðarins segir að um nýbreytni í skemmtanalífi sé að ræða og segir ekki um neina nektarsýningu að ræða.
„Jú, ég átti alveg von á blendnum viðbrögðum,“ segir Daníel Sæmundsson, eigandi Manhattan. „Þetta kemur mér ekkert á óvart. Við höfum aldrei gert þetta áður, en langar til að brjóta skemmtanalífið aðeins upp.“
Á facebooksíðu keppninnar segir að keppnin sé fyrir stúlkur, sem eigi að vera brjóstahaldaralausar í hvítum stuttermabol. „Og svo er hellt yfir hana klakavatni. Þegar allar stúlkurnar hafa lokið keppni þá eiga áhorfendur að skera úr um hver situr uppi sem sigurvegari, það verður gert með hljóðmælingu,“ segir á síðunni.
„Meiri nekt í fitnesskeppnum“
Daníel segir að ekki sé um neina nektarsýningu að ræða, eins og sumir virðist halda. „Blautbolakeppni eða fegurðarsamkeppni; hver er munurinn? Það er meiri nekt í fitnesskeppnum en verður þarna í kvöld, stelpurnar verða allar í stuttermabolum. Þannig að mér finnst svolítið verið að gera úlfalda úr mýflugu. En auðvitað má fólk hafa sínar skoðanir.“
Daníel segir að til þess að keppnin verði haldin þurfi fimm að skrá sig til leiks, að lágmarki. Fjórar stúlkur höfðu skráð sig í hana á níunda tímanum í kvöld, en hann segist engar áhyggjur hafa af því að aflýsa þurfi keppninni.