Einn er mikið slasaður eftir að sprenging varð í íbúð í fjölbýlishúsi í Ofanleiti um ellefuleytið í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins er ekki kunnugt um slys á fleirum.
Lögregla rýmdi húsið.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segir að mjög miklar skemmdir hafi orðið á íbúðinni, sprengingin hafi verið afar kröftug. Verið er að reyna að slökkva eldinn í íbúðinni, hann mun ekki hafa breiðst út en verið er að reykræsta íbúðina fyrir ofan.
Braki úr húsgögnum og innanstokksmunum rigndi yfir nágrennið.
Allt tiltækt slökkvilið er á staðnum og að auki hefur verið kallað út það sem nefnist „litla úthringingin“, en þá eru allir slökkviliðsmenn sem eru á bakvakt kallaðir út.
Frétt mbl.is: Sprenging í fjölbýlishúsi