Fyrsta verk að stöðva viðræðurnar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi flokksins fyrir ári.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi flokksins fyrir ári. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrsta verk Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, í Evrópumálum fari svo að hann leiði ríkisstjórn landsins að loknum þingkosningunum næsta vor verður að stöðva viðræðurnar um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Bjarni sagði að hann myndi fylgja þeirri stefnu sem samþykkt hefði verið á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins haustið 2011 en þar er gert ráð fyrir því að hlé verði gert á viðræðunum og þær ekki hafnar aftur nema með samþykki meirihluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá sagði hann að í aðdraganda slíkrar kosningar myndi hann leggja til að viðræðunum yrði slitið.

Þorgerður útskýri ummælin

Bjarni var ennfremur spurður út í þau ummæli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, fyrrverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins, nýverið þess efnis að flokkurinn mætti ekki verða Teboðshreyfing Íslands en þar vísaði hún til hægrisinnaðrar stjórnmálahreyfingar í Bandaríkjunum sem kallast Tea Party Movement.

Bjarni sagði að Þorgerður yrði að útskýra ummæli sín enda ætti það starf sem fram færi innan Sjálfstæðisflokksins ekki samleið með þeirri hreyfingu sem hann tók undir að væri öfgahreyfing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka