Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður, hlaut í dag Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti, en umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitti hana í tilefni af degi íslenskrar náttúru.
Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Hjörleifur Guttormsson hafi um áratuga skeið barist fyrir verndun náttúru Íslands. Hann hafi átt frumkvæði að stofnun Náttúruverndarsamtaka Austurlands og verið þar formaður um níu ára skeið. Þá segir að Hjörleifur hafi beitt sér með ýmsum hætti í þágu náttúruverndar sem þingmaður og að hann hafi einnig látið til sín taka í umhverfis- og náttúruverndarmálum á alþjóðavettvangi.
Þá sé Hjörleifur höfundur fjölmargra bóka og greina um umhverfismál og íslenska náttúru, og eru taldar upp ásamt öðrum bókin „Hallormsstaður í Skógum“ sem kom út árið 2005 og „Leiðsögn um Vatnajökulsþjóðgarð“ sem kom út í fyrra.