Dagur íslenskrar náttúru er í dag og verður honum fagnað á fjölbreyttan hátt víða um land. Meðal viðburða eru gönguferðir, ratleikir, hjólatúrar, fjallgöngur, opin söfn og sýningar, fyrirlestrar, ráðgjöf og fræðsla um íslenska náttúru.
Í tilefni dagsins les Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra veðurfregnir á Rás 1 klukkan 10:03. Þá hefst hjólaævintýri fjölskyldunnar klukkan 13:30 þegar lestir hjólreiðafólks úr þremur sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu mætast við stífluna í Elliðaárdal.
Sýningin „Lífið í Vatnsmýrinni“ verður opin í sýningarsal Norræna hússins á milli klukkan 12 og 17. Í tengslum við hana er í boði ratleikur með spurningum og verkefnum fyrir alla fjölskylduna. Einnig er að finna vinnustofu með ýmsu föndri tengdu náttúrunni, ásamt möguleika á að rannsaka vatnið og umhverfið í rannsóknarhorni fyrir börnin.
Þá býður Náttúrufræðistofnun Íslands upp á náttúrugripagreiningu í Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ þar sem almenningi gefst þá kostur á að fá sérfræðinga stofnunarinnar til að greina fyrir sig náttúrugripi og þar verða sérfræðingar í steinum, steingervingum, íslenskum plöntum, sjávardýrum, fuglum og villtum spendýrum.
Dagskrá Dags íslenskrar náttúru 2012