Refsiaðgerðir gegn Íslandi eina leiðin

„Þó það beri að harma það að refsiaðgerðum hafi verið hótað þá getum við ekki leyft að það blygðunarlausa skeytingarleysi, sem Íslendingar og Færeyingar hafa sýnt í þessu máli, fái að halda áfram,“ segir Evrópuþingmaðurinn Diane Dodds um makríldeiluna á vefsíðu sinni.

Dodds, sem situr á Evrópuþinginu fyrir Norður-Írland, vísar þar til þeirra refsiaðgerða sem Evrópuþingið samþykkti í síðustu viku um að heimila Evrópusambandinu að grípa til gegn ríkjum utan sambandsins sem það telur að stundi ósjálfbærar fiskveiðar á sameiginlegum fiskistofnum.

„Með því að taka þá áhættu að gjörnýta fiskistofn sem stýrt hefur verið með góðum og sjálfbærum hætti stofna þeir í hættu því sem verið hefur efnahagslega mikilvægasti hluti sjávarútvegar á Norður-Írlandi,“ segir Doods ennfremur. Hún segir að allt frá árinu 2010 hafi verið ljóst að eina vonin um að koma vitinu fyrir Íslendinga væri að hóta þeim refsiaðgerðum.

„Skylda framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er núna að framkvæma vilja Evrópuþingsins og ég mun fara þess á leit við sjávarútvegsráðherra Bretlands að tryggja að refsiaðgerðum, sem í þessu tilfelli á einkum við um vörur framleiddar úr makríl, verði beitt,“ segir Dodds.

Vefsíða Diane Dodds

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert