Sakar velferðarráðherra um lögbrot

Lilja Mósesdóttir, alþingismaður.
Lilja Mósesdóttir, alþingismaður. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Guðbjartur braut lög um Kjararáð þegar hann hækkaði laun forstjóra Landspítalans um 450 þúsund krónur á mánuði,“ segir Lilja Mósesdóttir, alþingismaður, og vísar þar til þeirrar ákvörðunar Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra að hækka laun Björns Zoëga, forstjóra Landspítalans, í síðasta mánuði. Lilja bendir á að samkvæmt lögunum eigi Kjararáð að ákveða laun ríkisstofnana en ekki ráðherra.

„Mikil ólga er meðal háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og kröfur um mörg þúsund króna launahækkanir heyrast nú úr öllum áttum innan opinbera geirans. Launahækkanir sem ekkert svigrúm er fyrir auka halla ríkissjóðs og hækka þarf álögur sem fara út í verðlagið,“ segir Lilja. Þá muni verðbólguskotið magna enn upp skuldavanda heimilanna.

„Ákvörðun Guðbjarts er brot á lögum sem ógnar fjármálum hins opinbera og heimilanna. Guðbjartur er auk þess ráðherra flokks sem kallar sig Jafnaðarmannaflokk Íslands en ákvörðun hans rauf samkomulag sem gilt hefur eftir hrun um að allar stéttir haldi aftur af launakröfum sínum og að byrðar hrunsins leggist þyngst á hópinn sem hefur hvað breiðust bökin. Guðbjartur á að sjá sóma sinn í að segja af sér sem ráðherra,“ segir Lilja á Facebook-síðu sinni í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert