Tungnaréttir hófust í morgun í blíðskaparveðri. Réttunum var frestað um einn dag, því ekki var hægt að smala í einn og hálfan sólarhring vegna óveðurs á Hveravöllum.
Að sögn Lofts Jónassonar fjallkóngs er fjölmennt í réttunum. „Við byrjuðum klukkan níu í morgun, hér er sólskin og norðanblær og góð stemning hjá fólki og fénaði,“ sagði Loftur í samtali við mbl.is um ellefuleytið í morgun.
Hann segir að á milli 4.500 og 5.000 kindur séu í réttunum. „Við erum að verða langt komin með að draga í sundur og svo byrjar söngurinn og fjörið.“