Ekki rekið með einum forstjóra

Stéttarfélag sjúkraþjálfara hefur sent frá sér ályktun vegna launahækkana forstjóra Landspítala. Þar kemur fram að heilbrigðiskerfið verði ekki rekið með forstjóra einum saman og mikilvægt sé að horfa á launakjör annarra heilbrigðisstarfsmanna.

„Velferðarráðherra ákvað á dögunum að hækka laun forstjóra Landspítalans um 450 þúsund krónur á mánuði án nokkurs samráðs við kjararáð sem ákvarðar að öllu jöfnu laun forstjóra ríkisstofnana. Rök ráðherra fyrir þessari hækkun voru þau að læknastörf forstjórans hefðu aukist en jafnframt að honum hefði boðist betra atvinnutilboð frá Svíþjóð og laun hans því hækkuð til að koma í veg fyrir brottflutning forstjórans.

Stéttarfélag sjúkraþjálfara leggur ríka áherslu á að heilbrigðisstarfsfólk sé metið að verðleikum og fái laun í samræmi við menntun, reynslu og álag í starfi. Ljóst er að flestir heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi í dag geta fengið betur launuð störf erlendis, rétt eins og forstjóri Landspítalans. Heilbrigðiskerfið verður hins vegar ekki rekið með forstjóra einum saman og því er mjög mikilvægt að beina athyglinni að launakjörum sjúkraþjálfara og annarra heilbrigðisstarfsmanna sem dag hvern leggja sig alla fram við að sinna því mikilvæga starfi sem fram fer á heilbrigðisstofnunum landsins. 

Þessi mikla hækkun á launum forstjórans hefur komið illa við sjúkraþjálfara sem og aðra heilbrigðisstarfsmenn sem stöðugt starfa við meira álag, krappari kjör og lélegri aðstæður vegna langvarandi niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu. Stéttarfélag sjúkraþjálfara skorar á stjórnvöld að snúa þessari þróun við ef ætlunin er að halda í hæft starfsfólk innan hins íslenska heilbrigðiskerfis,“ segir í ályktun sjúkraþjálfara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert