Nýtingarleyfum verði úthlutað árlega

Auðlinda­nefnd vill að hluta sér­leyfa til nýt­ing­ar fisk­stofna við landið verði út­hlutað ár­lega, en nefnd­in ger­ir hins veg­ar ekki beina til­lögu um hvað leyf­in eigi að vera til langs tíma.

Nefnd for­sæt­is­ráðherra um stefnu­mörk­un í auðlinda­mál­um rík­is­ins hef­ur skilað skýrslu til for­sæt­is­ráðherra og hef­ur verið tek­in til um­fjöll­un­ar í rík­is­stjórn. Nefnd­in var sett á fót sam­kvæmt ákvörðun rík­is­stjórn­ar í maí 2011. Í nefnd­inni voru Arn­ar Guðmunds­son formaður, Álf­heiður Inga­dótt­ir, Gunn­ar Tryggva­son, Indriði H. Þor­láks­son, Ragn­ar Arn­alds og Svan­fríður Inga Jón­as­dótt­ir.

Í skýrsl­unni er m.a. fjallað um hvað út­hluta eigi leyf­um til að nýta auðlind­ir til langs tíma. Þar þurfi að leita jafn­væg­is á milli tveggja sjón­ar­miða sem bæði séu mik­il­væg. Ann­ars veg­ar er sú lýðræðis­lega krafa að næstu kyn­slóðir geti tekið ákv­arðanir um út­gáfu sér­leyfa til nýt­ing­ar auðlinda sinna en séu ekki bundn­ar af mjög löng­um sér­leyf­um. Hins veg­ar er mik­il­vægt að há­marka þann auðlinda­arð sem eig­andi auðlind­ar­inn­ar fær af nýt­ingu henn­ar en taka jafn­framt til­lit til þarfa sér­leyf­is­hafa. Of lang­ur tími skerðir val­kosti eig­anda auðlind­ar­inn­ar varðandi end­ur­nýj­un sér­leyfa til nýt­ing­ar, út­gáfu nýrra sér­leyfa til handa öðrum nýt­ing­araðilum eða ákv­arðanir um að nýta í eig­in nafni. Of skamm­ur tími get­ur dregið úr auðlinda­arði sem eig­and­inn fær auk þess að skapa þrýst­ing á verð afurða auðlind­ar­inn­ar og sjálft nýt­ing­ar­mynstrið, þ.e. auk­inn hvati verður til ágengr­ar nýt­ing­ar sem myndi vinna gegn mark­miðinu um sjálf­bæra þróun.

„Auðlinda­grein­ar eru í mjög mis­jafnri stöðu hvað varðar markað með sér­leyfi til nýt­ing­ar. Í orku­geir­an­um er aug­ljós­lega ekki hægt að flytja sér­leyfi til nýt­ing­ar á milli virkj­ana. Hins veg­ar hef­ur lengi verið mjög virk­ur markaður með sér­leyfi til nýt­ing­ar nytja­stofna sem háðir eru lög­um um afla­mark. Þar mætti því tryggja rekstr­arör­yggi með því að nógu stór hluti sér­leyfa sé boðinn út á markaði á ári hverju og að þau séu til mis­mun­andi tíma sem mæt­ir þörf­um grein­ar­inn­ar,“ seg­ir í skýrsl­unni.

Nefnd­in fjallaði líka um hvað eigi að gera við arð af auðlind­um. Nefnd­in benti á að í ljósi þess að auðlinda­arður verður til vegna verðmæt­is auðlinda víða um land og að nærsam­fé­lög­in þurfa oft að færa fórn­ir og taka á sig kostnað vegna nýt­ing­ar, þró­un­ar og hagræðing­ar í ein­stök­um auðlinda­grein­um sé bæði sjálfsagt og eðli­legt að tryggja að hluti auðlinda­arðsins renni til verk­efna í þess­um sam­fé­lög­um, ekki síst til efl­ing­ar innviða og fjöl­breytt­ara at­vinnu­lífs.

Horfa til margra sjón­ar­miða

Til­lög­ur nefnd­ar­inn­ar byggj­ast á þeim ít­ar­legu skýrsl­um sem unn­ar hafa verið á und­an­förn­um árum um auðlinda­mál. Ber þar sér­stak­lega að geta um starf auðlinda­nefnd­ar, sem lauk árið 2000.

Auðlinda­stefnu­nefnd legg­ur áherslu á hina sam­fé­lags­legu vídd sjálf­bærr­ar þró­un­ar, vel­ferð og sátt. Litið er til þátta á borð við jöfnuð og lýðræðis­leg yf­ir­ráð auðlinda, gætt að rekstr­ar­hæfi og vaxt­ar­mögu­leik­um þeirra greina sem byggja beint á auðlinda­nýt­ingu og hugað að rétti kom­andi kyn­slóða. Þannig sé hægt að ná ásætt­an­leg­um stöðug­leika.

Drög að skýrslu nefnd­ar­inn­ar voru kynnt op­in­ber­lega með málþingi í Hörpu 22. júní 2012 og á heimasíðu for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins. End­an­legri skýrslu var skilað að lok­inni úr­vinnslu á þeim ábend­ing­um og at­huga­semd­um sem sett­ar voru fram á málþing­inu og í kjöl­far þess.

Til­lög­ur nefnd­ar­inn­ar

  1. Fyr­ir nýt­ingu á auðlind­um og tak­mörkuðum gæðum  í at­vinnu­skyni verði greitt gjald sem standi und­ir um­sýslu- og um­hver­fis­kostnaði.
  2. Arður sem staf­ar af aðgangi nýt­ing­araðila að til­tek­inni auðlind eða tak­mörkuðum gæðum í at­vinnu­skyni verði skattlagður að hluta. Slík­ur arður er þegar fyr­ir hendi eða lík­leg­ur til að mynd­ast vegna vatns­afls, jarðvarma, ferskvatns, fiski­stofna, los­un­ar­heim­ilda, þjóðlendna og kol­vetn­is í jörðu.
  3. Nýt­ing­ar­leyfi verði háð skýr­um regl­um og gild­is­tími þeirra taki mið af eðli viðkom­andi auðlind­ar, nauðsyn­legri fjár­fest­ingu, fjölda nýt­ing­araðila og aðgeng­is að sér­leyf­um.
  4. Tekj­ur rík­is­ins af auðlind­um komi fram á sér­stök­um Auðlinda­reikn­ingi, sem meðal ann­ars fylgi fjár­laga­frum­varpi, og sýni verðmæti auðlind­anna og fram­lag þeirra til sam­fé­lags­ins.
  5. Arði af end­ur­nýj­an­leg­um auðlind­um verði ráðstafað af Alþingi, með sama hætti og öðrum tekj­um rík­is­ins. Komi til tekna af óend­ur­nýj­an­leg­um auðlind­um renni þær í Auðlinda­sjóð, í þágu hags­muna kom­andi kyn­slóða.
  6. Til­hög­un við auðlindaum­sýslu verði með sam­ræmd­um hætti. Byggð verði upp sérþekk­ing á mis­mun­andi leiðum við mat á auðlindar­entu, skila­leiðum auðlinda­arðs til þjóðar­inn­ar, aðferðum við út­hlut­un sér­leyfa, gild­is­tíma þeirra og öðrum skil­yrðum sem slíkri um­sýslu tengj­ast.

Skýrsla auðlinda­nefnd­ar

mbl.is/ÞÖ​K
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert