Ekkert er leitað að fé á Þeistareykjum í S-Þingeyjarsýslu í dag, en þar er snjókoma og hvasst. Spáð er norðankulda á svæðinu næstu tvo daga. Vitað er um margt fé á svæðinu sem reynt verður að smala um leið og færi gefst.
„Það var ákveðið að stoppa í dag og hvíla mannskapinn. Menn eru búnir að vera á fullu í marga daga. Við tökum stöðuna seinna í dag. Veðurspáin er ekki neitt sérstaklega góð næstu tvo dagana. Það er spáð norðankulda,“ segir Böðvar Baldursson, bóndi á Heiðargarði í Aðaldal.
Réttað var í Hraunsrétt í gær. Bændur töldu það fé sem skilaði sér og eru því að átta sig á hversu mikið vantar enn af fjalli. Böðvar segir að vitað sé um talsvert margt fé enn uppi á afréttindum sem leitarmenn neyddust til að skilja eftir. Menn séu því enn ekki komnir með yfirlit yfir þann fjárskaða sem varð í óðveðrinu sem gerði sl. mánudag.
„Þetta tekur allt tíma, sérstaklega þegar snjóinn ætlar ekkert að taka upp. Það bætir í núna. Það er slydda í byggð og snjókoma á Þeistareykjum með hvassviðri og hríð. Það spáir eitthvað betra eftir miðja viku þegar vindur snýst í suðlægar áttir,“ segir Böðvar.
„Þetta eru hrikalegar hamfarir. Maður gerir sér ekki grein fyrir þessu fyrr en maður upplifir þetta,“ segir Áskell Þór Gíslason, sem um helgina leitaði að fé við bæinn Mýri innst í Bárðardal í S-Þingeyjarsýslu.
Áskell var í mörg ár í sveit á Mýri, en hann fór um helgina ásamt nokkrum vinum og kunningjum hjónanna á Mýri til að leit að fé sem fennti í kaf. Hann segir að þeir hafi fundið sjö dauðar kindur og nokkrar lifandi. Hann segir að tjón bænda á Mýri sé þó minna en sumra annarra á þessu svæði.
Áskell fann fyrir tilviljun lambhrút sem var í skafli undir um 1,5 metra lagi af snjó. Hann var á lífi og í ágætu standi. Hrúturinn fannst um 800 metrum frá húsunum á Mýri. Áskell segir að þetta sýni að féð hafi fennt út um allt, bæði uppi á reginfjöllum og alveg heima við hús.