Mælingar sem gerðar voru á dýpi í Landeyjahöfn fyrir viku sýna að efni hefur verið að setjast til í höfninni og hafnarmynninu. Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Siglingastofnunar, segir að staðan sé skárri en á sama tíma fyrir ári, en hún sé hins vegar viðkvæm.
Dýpi í Landeyjahöfn var mælt í byjun ágúst og síðan aftur fyrir viku. Mælingarnar sýna að efni hefur verið að setjast til inni í höfninni og í hafnarmynninu.
Dýpkunarskipið Perlan hefur unnið við dýpkun í Landeyjahöfn í sumar. Fyrir nokkrum vikum voru opnuð tilboð í dýpkun hafnarinnar. Óskað var eftir tilboðum í viðhaldsdýpkun, en áætlað er að dýpka þurfi þar allt að 360.000m³ á næstu þremur árum.
Þórhildur segir að ekki sé búið að ganga frá samningum um þetta verkefni, en það verði gert á næstu vikum. Fimm tilboð bárust frá þremur aðilum. Tilboðin hljóðuðu upp á 295,3 milljónir til 744 milljónir. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 360 milljónir.