Álagið eiginlega ómannlegt

Ys og þys á bráðamóttöku Landspítalans.
Ys og þys á bráðamóttöku Landspítalans. Mbl.is/Árni Sæberg

Hjúkr­un­ar­fræðing­ur á bráðamót­töku Land­spít­al­ans lýs­ir álag­inu sem gríðarlegu. Þegar sjúkra­liða vant­ar á vakt ganga hjúkr­un­ar­fræðing­ar í þeirra störf. Hann seg­ist lifa fyr­ir starfið en hafi íhugað að segja því lausu þegar hann opnaði launa­seðil­inn í ág­úst. Grunn­laun­in eru 278 þúsund á mánuði.  

Lít­ill tími fyr­ir sjúk­ling­ana

„Þetta er svo­lít­il klikk­un og þegar álagið er sem mest er það eig­in­lega ómann­legt. Við höf­um ekki mik­inn tíma fyr­ir sjúk­ling­ana, því er nú verr og miður. Maður sinn­ir grunnþörf­un­um og þessu nauðsyn­lega, en það gefst ekki tími fyr­ir meira,“ seg­ir Gunn­ar Pét­urs­son sem starfað hef­ur sem hjúkr­un­ar­fræðing­ur á bráðamót­töku Land­spít­al­ans í Foss­vogi í tvö ár. 

Gunn­ar skrifaði pist­il á sunnu­dags­kvöld sem gengið hef­ur milli manna á Face­book þar sem hann seg­ir frá yf­ir­full­um göng­um spít­al­ans, stöðugu flæði sjúk­linga og örþreyttu starfs­fólki. Hann seg­ir kveikj­una hafa verið sér­stak­lega erfiða næt­ur­vakta­helgi. 

„Álagið er gríðarlegt þarna, en þetta var óvenju erfið vakt. Öll rúm full og ekk­ert frá­flæði af deild­inni enda alls staðar full rúm á spít­al­an­um í báðum hús­um svo við kom­um sjúk­ling­un­um hvergi fyr­ir. Sem bet­ur fer var mönn­un­in mjög góð en það var samt tæpt um morg­un­inn því þá hringdu nokkr­ir sig inn veika og ástandið hefði getað orðið hættu­legt ef ekki hefði verið gripið inn í á rétt­an hátt.“

Lang­ur biðtími

Á mestu álagspunkt­um á bráðamót­tök­unni má ekk­ert út af bera að sögn Gunn­ars, en hann legg­ur þó áherslu á að sjúk­ling­ar séu aldrei í beinni hættu út af álag­inu. „En við mynd­um vilja geta sinnt þeim bet­ur. Stund­um er biðtím­inn rosa­lega mik­ill af því við erum að bíða eft­ir pláss­um á öðrum deild­um.

„Eins er álagið mikið á deild­ar­lækna sem koma af lyflækn­inga- og skurðlækn­inga­sviði með langa biðlista af sjúk­ling­um til að skoða og leggja inn. Þetta skap­ar erfitt ástand, bæði fyr­ir sjúk­ling­inn og starfs­fólkið en ekki síður aðstand­end­ur. Eng­um finnst gam­an að bíða en við reyn­um að vinna eins hratt og við get­um.“

Í júlí­mánuði var Gunn­ar sam­tals 227 klukku­stund­ir í vinn­unni. „227 klukku­stund­um af því að taka þátt í lífs­bjarg­andi aðgerðum, halda í hend­ur sjúk­linga á oft verstu tím­um lífs þeirra, lina verki, búa um sár, sjá um mál ótal sjúk­linga sem þurftu þjón­ustu mína, vera til staðar þegar á þurfti að halda, koma inn næst­um fyr­ir­vara­laust þrátt fyr­ir að eiga frí­dag, ræða við ætt­ingja sjúk­linga og veita þeim stuðning [...]“ Þegar hann opnaði launa­seðil­inn næstu mánaðamót seg­ist Gunn­ar hafa íhugað að segja upp. 

Kvöld, næt­ur og helg­ar bjarga laun­un­um

„Mér fannst þetta svo mik­il móðgun við mig og tíma minn, því maður er að fórna sér svo gjör­sam­lega. Maður bara skamm­ast sín. En ég vil alls ekki vera að væla, mér finnst þetta vera skemmti­leg­asta starf í heimi og ég lifi fyr­ir það. Það eru verðlaun­in sem ég fæ. Ef mér þætti þetta starf ekki svona skemmti­legt væri ég löngu hætt­ur.“

Grunn­laun hjúkr­un­ar­fræðings eru 278 þúsund krón­ur á mánuði. Marg­ir bæta það upp með mik­illi vakta­vinnu, líkt og Gunn­ar, en ekki hafa all­ir tök á því. „Ég vinn aðallega kvöld, helg­ar og næt­ur og ég hef það svo sem ágætt. Ég fæ hærra út­borgað en grunn­laun­in segja til um vegna vakt­anna, en ef ég þyrfti að vinna dag­vinnu þá gæti ég varla borgað leigu og föst út­gjöld. Ég hugsa til þess með hryll­ingi ef ég þyrfti að sjá fyr­ir barni á þess­um laun­um.“

Vænt­ing­ar um betri kjör

Í morg­un fjöl­menntu hjúkr­un­ar­fræðing­ar á sam­stöðufund og kröfðust kjara­bóta, en þeim er að sögn ofboðið vegna launa­hækk­un­ar for­stjóra Land­spít­al­ans. Aðspurður seg­ist Gunn­ar bú­ast við því að at­b­urðir und­an­far­inna daga hafi áhrif á kjaraviðræður hjúkr­un­ar­fræðinga. „Ég vona það. Auðvitað eiga menn skilið umb­un fyr­ir góð störf. Björn Zoëga er bú­inn að gera góða hluti, og þetta á ör­ugg­lega eft­ir að hafa áhrif. Ég trúi ekki öðru.“

Sjálf­ur hygg­ur Gunn­ar á meist­ara­nám í hjúkr­un­ar­fræði er­lend­is. Marg­ir koll­ega hans hafa flutt til Nor­egs og annarra ná­granna­landa til að drýgja tekj­urn­ar en sjálf­ur stefn­ir Gunn­ar á Sidney í Ástr­al­íu. Ævin­týraþrá spil­ar þar inn í, en hann seg­ist auk þess telja að kjör hjúkr­un­ar­fræðinga séu betri þar. „Kjör­in eru þægi­leg, eng­ar há­tekj­ur, en góð.“

Gunnar Pétursson hjúkrunarfræðingur
Gunn­ar Pét­urs­son hjúkr­un­ar­fræðing­ur Ljós­mynd/Ú​r einka­safni
Slösuðum sinnt á bráðamóttökunni í Fossvogi.
Slösuðum sinnt á bráðamót­tök­unni í Foss­vogi. Mbl.is/​Friðrik Tryggva­son
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert