Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra segir að meginlærdómurinn af skýrslu Seðlabankans um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum væri sá að við þyrftum að taka til á heimavelli og „koma húsinu í lag“, eins og hann orðaði það í umræðum á Alþingi.
Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Steingrím út í skýrsluna og hvað hann teldi vera meginniðurstaða hennar.
Steingrímur sagði að skýrsla Seðlabankans væri gagnleg og myndi hjálpa Íslendingum að átta sig á möguleikum landsins í stöðunni. Megininntak skýrslunnar væri að Íslendingar yrðu að koma málum í lag hér heima. Ef það tækist ættu þeir tvo valkosti, annars vegar að nota áfram krónu og hins vegar að taka upp evru með aðild að gjaldmiðilssamstarfi.
Steingrímur sagði að ef það tækjust samningar við Evrópusambandið um aðild Íslands að sambandinu og sá samningur yrði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu þá yrðu Íslendingar auðvitað að vera með klára peningastefnu. Sú stefna hlyti þá að byggjast á því að krónan verði notuð áfram.
Steingrímur sagði að skýrsla Seðlabankans væri einnig gagnleg að því að hún ýtti út af borðinu hugmyndum um einhliða upptöku annars gjaldmiðils. Steingrímur var þá minntur á í frammíkalli að hann hefði viljað taka upp norska krónu.
Ólöf Nordal minnti á viðbrögð Össurar Skarphéðinssonar við skýrslunni, en hann sagði að skýrslan sýndi að útilokað væri að vera hér áfram með krónu.