Málflutningi í Icesave-málinu lokið

Málsvarnarteymi Icesave.
Málsvarnarteymi Icesave. Ljósmynd/Fabrizio Pizzolante

Í dag fór fram mál­flutn­ing­ur fyr­ir EFTA-dóm­stóln­um í Ices­a­ve-mál­inu. Réttað var í húsa­kynn­um Versl­un­ar­ráðsins í Lux­em­borg sök­um þess að hinn reglu­legi dómssal­ur rúm­ar ekki þann fjölda mál­flutn­ings­manna og áheyr­enda sem bú­ist var við. Þetta kem­ur fram í frétta­til­kynn­ingu frá ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu.

Rétt­ar­höld­in fóru þannig fram að fyrst funduðu lög­menn aðila með dómur­um máls­ins og síðan fluttu þeir mál sitt munn­lega hver á fæt­ur öðrum. Lög­menn Eft­ir­lits­stofn­un­ar EFTA, ESA, og fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins riðu á vaðið og tefldu fram rök­semd­um fyr­ir því að Ísland hefði brugðist skyld­um sín­um sam­kvæmt til­skip­un um inn­stæðutrygg­ing­ar og brotið gegn jafn­ræðis­regl­um þegar inn­stæður í ís­lensk­um úti­bú­um gömlu bank­anna voru flutt­ar yfir í nýju bank­ana. Jafn­framt var vísað til alls­herj­ar­yf­ir­lýs­inga rík­is­stjórn­ar og ráðherra um ábyrgð á inn­stæðum, seg­ir í til­kynn­ingu ráðuneyt­is­ins.

Tim Ward, mál­flutn­ings­maður Íslands, tók því næst til máls. Hann and­mælti harðlega öll­um rök­semd­um og kröf­um um brot Íslands. Ýtar­lega var farið yfir til­urð til­skip­un­ar­inn­ar og sýnt fram á að inn­stæðutrygg­inga­kerfið rís ekki und­ir stór­felldu banka­áfalli, hvorki á Íslandi né ann­ars staðar. Fjar­stæðukennt sé að sjóðirn­ir hafi yfir fjár­mun­um að ráða sem dugi til að greiða út meiri­hluta inn­stæðna í viðkom­andi landi. Í slík­um til­vik­um grípi stjórn­völd æv­in­lega til annarra aðgerða, t.d. með því að end­ur­skipu­leggja banka­kerfið. Íslensk stjórn­völd hafi gripið til þeirra aðgerða sem tæk­ar voru og nauðsyn­leg­ar til að koma í veg fyr­ir heild­ar­hrun á Íslandi. Jafn­framt hafi hag­ur inn­stæðueig­enda í er­lend­um úti­bú­um bank­anna verið tryggður með því að þeim var veitt­ur for­gangs­rétt­ur við slit og skiptameðferð gömlu bank­anna.

Ward mót­mælti ásök­un­um um brot gegn jafn­ræðis­reglu. Grund­vall­ar­atriði væri að eng­inn hefði fengið greitt úr ís­lenska inn­stæðutrygg­inga­kerf­inu og því væri alls ekki um að ræða mis­mun­un inn­an þess. ESA hefði að öðru leyti ekki út­skýrt í hverju meint mis­mun­un­ar­brot hefði fal­ist og að í öllu falli væru rétt­læt­ing­araðstæður til staðar í skiln­ingi dóma­fram­kvæmd­ar á sviði Evr­ópu­rétt­ar, seg­ir í frétt ráðuneyt­is­ins.

Mál­flutn­ings­menn Nor­egs og Liechten­steins studdu málstað Íslands varðandi inn­stæðutil­skip­un­ina en Hol­lend­ing­ar og Bret­ar voru á önd­verðum meiði.

Mál­flutn­ingi lauk um kl. 14.00. Bú­ist er við að dóm­ur liggi fyr­ir inn­an 2-3 mánaða.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert