Mikill viðbúnaður við héraðsdóm

Mikill viðbúnaður lögreglu við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Mikill viðbúnaður lögreglu við Héraðsdóm Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus

Mikill viðbúnaður lögreglu var við Héraðsdóm Reykjavíkur er einn þeirra manna sem handteknir voru í gær í aðgerð lögreglu í Mosfellsbæ og Hafnarfirði, var leiddur fyrir dómara. Samkvæmt heimildum mbl.is var maðurinn úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald.

Að minnsta kosti átta lögreglumenn voru á svæðinu á þremur lögreglubílum á meðan dómarinn kvað upp úrskurðinn.

Sjö voru handteknir þegar lögreglan framkvæmdi tvær húsleitir í Hafnarfirði og Mosfellsbæ í gær. Á báðum stöðum var lagt hald á fíkniefni en á öðrum þeirra var jafnframt að finna verulagt magn af því sem talið er vera þýfi úr innbrotum á bæði höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. 

Á síðarnefnda staðnum var einnig lagt hald á skotvopn en á hinum tók lögreglan ennfremur sprengiefni í sína vörslu. Hinir handteknu, sem flestir eru á þrítugsaldri, tengjast allir Outlaws. Að aðgerðunum stóðu lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra og tollyfirvöld, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert