Segja spítalann minna á borgvirki

Tillaga að nýjum Landspítala samkvæmt kynningu á drögum að deiliskipulagi …
Tillaga að nýjum Landspítala samkvæmt kynningu á drögum að deiliskipulagi nýs Landspítala 30.08.2011. Ljósmynd/Nýr Landspítali

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar mótmælir deiliskipulagtillögu að nýjum Landspítala við Hringbraut vegna umhverfisáhrifa og ósamræmis við eldri byggð.

Við sameiningu Landspítalans á umræddri lóð verður til nokkurs konar borgvirki í útjaðri miðborgarinnar, segir í athugasemdum samtakanna.

„Vandséð er hvernig slíkt borgvirki, sem er að stórum hluta sjálfu sér nógt um innri starfsemi, verður miðborginni til framdráttar.

Minnt er á að þegar núverandi staðarval var ákveðið var ráðgert mun minna byggingarmagn en nú er í vændum eða ríflega 120.000 m2 samtals. Við þessa meira en helmings stækkun teljum við að forsendur hafi breyst svo mikið, að þau umhverfisáhrif verði svo miklu meiri að ekki sé ásættanlegt.

Stjórn Íbúasamtakanna vill þó árétta að sameining spítalans á einn stað sé nauðsynleg en verulegar efasemdir hljóta að vakna um staðarval vegna aukins umfangs.“

Þá er minnt á Menningarstefnu í mannvirkjagerð, stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist frá árinu 2007, þar sem segir á bls. 23:

„Áhersla skal lögð á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð. Til að tryggja heildrænt og sögulegt yfirbragð húsa, götumynda og byggðamynsturs er nauðsynlegt að stjórnvöld framfylgi skýrri stefnu þar um.

Ekki verður séð að við úrvinnslu deiliskipulagstillögunnar hafi verið tekið nægilega mið af þessari opinberu stefnu en um það hlýtur þó að vera skýlaus krafa,“ segir í athugasemdum samtakanna.

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar telur að tveir kostir séu í stöðunni. Annars vegar að laga mælikvarða og umfang fyrirhugaðra bygginga á Landspítalalóðinni að umhverfinu og laga innra skipulag og tæknilegar útfærslur að þeirri forsendu.

„Af því tilefni má m.a. benda á tillögur byggðar á hugmyndum Páls Torfa Önundarsonar yfirlæknis sem kynntar voru Skipulagsráði hinn 26. október sl. að ósk ráðsins. Sú tillaga snýst um mun minna byggingarmagn og að byggt sé á efri hluta lóðarinnar norðan Hringbrautar, þ.á m. fullbygging og stækkun K- byggingar.

Uppbyggingu sem gæti verið í meiri sátt við umhverfið og auk þess mun ódýrari lausn en framkomin tillaga, hugsanleg málamiðlun. Sú tillaga er reyndar einnig í takt við forsögn skipulagsráðs dagsett 8.3. 2010.

Hins vegar að finna sjúkrahúsinu annan stað þar sem ytri aðstæður í umhverfinu takmarka ekki hæð og form fyrirhugaðra bygginga.

Sú útfærsla sem valin er í fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu er óásættanleg í núverandi mynd og getur ekki leitt til farsællar niðurstöðu,“ segir í athugasemd íbúasamtakanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert