Tjón sauðfjárbænda verður bætt

Sigrún Óladóttir bóndi á Brúnahlíð í Aðaldal smalar fé á …
Sigrún Óladóttir bóndi á Brúnahlíð í Aðaldal smalar fé á Þeistareykjasvæðinu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Stjórnvöld hafa gefið Bjargráðasjóði heimild til að nýta fjármagn sem er í A-deild sjóðsins til að bæta tjón bænda á Norðurlandi sem hafa orðið fyrir fjárskaða. Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra segir að fjármagn til sjóðsins verði aukið ef það dugi ekki.

Þingmenn ræddu í dag tjón sem orðið hefur á Norðurlandi í óveðrinu sem gekk yfir landið 10. september, en frumkvæði að umræðunni átti Kristján Möller alþingismaður.

Steingrímur sagði að tjónið væri af þrennum toga, þ.e. tjón á raflínum, framleiðslutjón og fjárskaðar. Hann sagði að RARIK hefði markað þá stefnu að byggja upp kerfið í Mývatnssveit með lagningu jarðstrengja. Hann sagði sérstakt áhyggjuefni að aðeins ein flutningslína væri til Þórshafnar, en þar væri mikil fiskvinnsla. Að þessu þyrfti að huga þegar hugað yrði að bættu rafmagnsöryggi á þessu svæði.

Steingrímur sagði að atvinnuvegaráðuneytið hefði átt fund með Bændasamtökunum og Bjargráðasjóði. Eftir væru 25-30 milljónir í A-deild Bjargráðasjóðs, en þar væri um að ræða fjármagn sem sjóðurinn fékk til að mæta tjóni vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Þetta fjármagn yrði notað til að bæta tjón sem bændur hefðu orðið fyrir á Norðurlandi. Bætt yrði við fjármagni ef þess þyrfti. Langur tími myndi hins vegar líða áður en ljóst yrði hvað heildartjón bænda væri mikið.

Mikið tjón í Skagafirði

Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, sagði í umræðunum að hann hefði fengið upplýsingar um að um 1400 fjár vantaði af fjalli á Norðausturlandi og að búið væri að finna á annað hundrað dauðar kindur. Hann sagði að í Skagafirði vantaði 4500-6000 fjár og þar hefðu 300-400 kindur fundist dauðar.

Fram kom í umræðunum að heyfengur bænda á svæðinu væri ekki góður vegna mikilla þurrka í sumar. Núna þyrftu bændur að fara að gefa sauðfé óvenju snemma. Mikið tjón hefði einnig orðið á girðingum í veðrinu.

Allir sem tóku til máls í umræðunni færðu björgunarmönnum, starfsmönnum orkufyrirtækjanna og öðrum sem unnið hafa að björgun bestu þakkir.

Tjón á raflínum er áætlað 250-300 milljóni8r króna.
Tjón á raflínum er áætlað 250-300 milljóni8r króna. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert