Borgin vekur börnin

Starfsfólk velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fer heim til nokkurra unglinga í borginni …
Starfsfólk velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fer heim til nokkurra unglinga í borginni til að vekja þá og sjá þess að þeir fari í skólann. Jim Smart

Unglingar á grunnskólaaldri í nokkrum hverfum Reykjavíkurborgar fá sérstakan stuðning frá borginni til að vakna á morgnana. Starfsfólk velferðarsviðs fer heim til unglinganna í þessum tilgangi og sér til þess að þeir fari í skólann.

Um er að ræða fámennan hóp unglinga sem þurfa á þessari aðstoð að halda.

Verkefnið, sem kallast „Morgunhanar“ hefur verið í gangi um skeið og hefur gefið góða raun, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg. 

Þetta er hugsað sem forvarnarúrræði gegn brottfalli og lélegri skólasókn og einnig er stefnt að því að auka möguleika unglinganna til betri árangurs, bæði náms- og félagslega. Samkvæmt upplýsingum frá borginni er ekki farið út í þessar aðgerðir nema önnur úrræði hafi þegar verið reynd.

Morgunhanaverkefnið er unnið í samráði við börnin og fjölskyldur þeirra og boðið er upp á þennan möguleika eftir að ábendingar berast frá skóla um slæma mætingu.  Tilgangurinn er að draga jafnt og þétt úr því að börnin þurfi á aðstoðinni að halda og að hún leiði til þess að þau fari að vakna og mæta í skólann af sjálfsdáðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert