„Það var ákveðið í dag að það kemur ekki til uppsagna á Rás 1,“ segir Björg Eva Erlendsdóttir, formaður stjórnar RÚV. Stjórnin fundaði í kvöld og var þá m.a. rætt um hagræðingu í rekstri, en að sögn Bjargar eru uppsagnir ekki liður í því eins og rætt hafði verið meðal starfsmanna.
Líkt og mbl.is sagði frá í gær heyrðu starfsmenn Rásar 1 af hugsanlegum uppsögnum fjögurra til sex starfsmanna, sem tilkynna ætti á næstunni. Páll Magnússon fundaði með starfsmönnum í gærmorgun og sagðist hafa leiðrétt ákveðinn misskilning. Talan um fjölda þeirra sem kynnu að missa vinnuna væri úr lausi lofti gripin. Hann sagði þó jafnframt að ljóst yrði í lok þessarar viku hvernig gengið yrði fram.
Rekstraráætlun Ríkisútvarpsins er ekki að fullu frágengin en stjórn RÚV fundaði í kvöld og segir Björg Eva að sú ákvörðun hafi verið tekin að ekki kæmi til uppsagna. Aftur á móti muni föstum stöðugildum fækka þar sem ekki verði ráðið í þær stöður sem losna.