„Fullt tilefni til þess að íhuga áfrýjun“

Erla Skúladóttir, héraðsdómslögmaður, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Erla Skúladóttir, héraðsdómslögmaður, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Styrmir Kári

Fram kemur í yfirlýsingu frá Erlu Skúladóttur, lögmanni Gunnlaugs M. Sigmundssonar og Sigríðar G. Sigurbjörnsdóttur í meiðyrðamáli þeirra gegn Teiti Atlasyni, að fullt tilefni sé til þess að íhuga áfrýjun málsins en Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í morgun að vísa bæri hluta málsins frá og sýkna Teit að öðru leyti vegna þess. Segir í yfirlýsingunni að það sé skoðun umbjóðenda Erlu að dómurinn sé rangur og að héraðsdómur hafi komið sér undan því að taka á grunnspurningu málsins, það er hvort „tilefnislaust netníð“ fengi staðist lög.

Yfirlýsingin í heild:

„Vegna dóms í meiðyrðamáli umbjóðenda minna, Gunnlaugs M. Sigmundssonar og Sigríðar G. Sigurbjörnsdóttur, gegn Teiti Atlasyni, sem kveðinn var upp í dag, er nauðsynlegt að fram komi að það er mat stefnenda að dómurinn sé rangur í veigamiklum atriðum og fullt tilefni til þess að íhuga áfrýjun. Dómurinn kemur sér undan því að taka á þeirri grunnspurningu málsins hvort tilefnislaust netníð eins og það sem stefnendur hafa mátt þola af hálfu stefnda fái staðist lög. Frávísun aðalsakar stríðir gegn fyrri dómafordæmum Hæstaréttar í sambærilegum málum. Að auki fær ekki staðist að sýkna í framhaldssök vegna atvika sem sannanlega áttu sér stað eftir að stefndi hafði sett umstefnd meiðandi ummæli á netið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka