Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, ætlar að bjóða sig fram til endurkjörs í vor.
Í viðtali við Vikudag segist hann ætla að bjóða sig fram í fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar en hann fór síðast fyrir framboðslista Samfylkingarinnar í kjördæminu og fékk flokkurinn þá þrjá þingmenn. Aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi verður haldinn á Húsavík á laugardaginn.
Á fundinum verður væntanlega ákveðið hvernig staðið verður að uppstillingu á framboðslistann við komandi Alþingiskosningar. „Við þurfum að fylgja fast eftir öllum framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng og hugsa fyrir því hvernig við nýtum nýja möguleika sem skapast með samtengingum og stórbættum samgöngum. Við þurfum að auka skilning á þýðingu sjávarútvegsins á svæðinu, efla atvinnuuppbyggingu eins og til dæmis á Húsavík með notkun hinnar miklu orku NA svæðisins, gera þjónustu við norðurslóðir að stóru framtíðarmáli og setja þekkingarsetur og rannsóknir í öndvegi. Verkefnin blasa við og það er mér kappsmál að fá að taka þátt í að vinna að framgangi þeirra á Alþingi fái ég til þess brautargengi,“ segir Kristján L. Möller.