„Þetta kemur ekki á óvart, við skulum segja það,“ segir Sigríður Rut Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og verjandi Teits Atlasonar í meiðyrðamáli Gunnlaugs M. Sigmundssonar gegn honum, aðspurð hvort hún hafi búist við þeirri niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í morgun að vísa málinu frá að hluta og sýkna Teit að hluta.
„Þetta var náttúrulega frávísun að hluta og sýkna að hluta, ég er ekkert hissa á þeirri niðurstöðu. Auðvitað hefði maður frekar viljað fá efnisdóm í öllu en ég er ekkert ósammála þeirri niðurstöðu að málið hafi ekki verið lagt fyrir dóm í dómtækri mynd,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is.