SA: Ekki færri störf frá 2005

Fjöldi starfand ií hverjum mánuði og fjöldi stafandi að meðaltali …
Fjöldi starfand ií hverjum mánuði og fjöldi stafandi að meðaltali síðustu tólf mánuði. Af vef Samtaka atvinnulífsins

Niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar fyrir ágúst síðastliðinn eru ekki uppörvandi að mati Samtaka atvinnulífsins. Fækkun íbúa á vinnualdri er áætluð 600 miðað við ágúst  2011 og vinnuaflsframboð landsmanna er talið hafa minnkað um 2.500. Sú fækkun skýrist annars vegar af fólksfækkuninni og fjölgun um 1.900 í hópi þeirra sem standa utan vinnumarkaðarins. Störfum fækkaði um 1.600 en þrátt fyrir það fækkar atvinnulausum um 900 vegna fjölgunar þeirra sem standa utan vinnumarkaðar. Þetta kemur fram í frétt á vef samtakanna.

 Í frétt SA segir að þegar litið sé lengra aftur í tímann komi í ljós að störf í ágúst hafa ekki verið færri síðan árið 2005. Loks hefur meðalvinnutími á viku styst um tæplega eina klukkustund. Fækkun starfandi fólks og stytting  vinnutíma samanvegin leiðir til þeirrar niðurstöðu að unnum heildarvinnustundum hafi fækkað um 5% í ágúst miðað við sama tíma í fyrra.

„Svipuð mynd kemur í ljós þegar litið er á niðurstöður rannsóknarinnar um þróunina innan þessa árs. Árstíðaleiðréttar tölur sýna að íbúum á vinnualdri hafi fækkað um 4.200 milli janúar og ágúst og að vinnuaflsframboð landsmanna hafi minnkað um 3.600 manns. Á sama tíma hafi starfandi fólki fækkað um 3.200 og vinnutími styst um eina klukkustund. Fækkun starfandi og stytting vinnutíma  samanvegin sýnir að unnum heildarvinnustundum í landinu hafi fækkað um 4,3% frá ársbyrjun. Fjöldi atvinnulausra er svipaður sem og hlutfallslegt atvinnuleysi, eða 6,4% í ársbyrjun og 6,3% í ágúst,“ segir í frétt Samtaka atvinnulífsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert