Sama hvernig dæmt verður í Icesave-málinu þá mun Evrópusambandið alltaf tapa. Þetta segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni en munnlegur málflutningur fór fram í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum í gær.
„Ef við verðum dæmd er ríkisábyrgð á innstæðum í ESB og er ekki á bætandi varðandi lánshæfismat og ábyrgðir. Margnefnd mismunun getur varla átt við því íslenskir sparifjáreigendur töpuðu miklu vegna verðminni krónu á meðan Icesave eigendur fengu allt sitt greitt í evrum og pundum,“ segir hann.
Pétur segir að staðan sé að sama skapi slæmt fyrir ESB ef Ísland vinnur málið. „Ef við vinnum vakna spurningar um hvort þetta innstæðukerfi tryggi nokkurn skapaðan hlut. Það gæti vakið ugg hjá sparifjáreigendum í ESB og þar er stjórnmálamönnum ekki alveg sama um þann hóp fólks.“