Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Teit Atlason af meiðyrðakröfu Gunnlaugs M. Sigmundssonar vegna ummæla sem Teitur viðhafði á bloggsíðu sinni fyrr á þessu ári vegna svokallaðs Kögunar-máls.
Málinu var vísað frá dómi og Teitur sýknaður samkvæmt dómsorði. Þá var Gunnlaugi og eiginkonu hans gert að greiða Teiti eina og hálfa milljón króna í málskostnað.
Hvorki Teitur né Gunnlaugur voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna.
Sameiginlegri og óaðgreindri kröfu þeirra Gunnlaugs og eiginkonu hans Sigríðar G. Sigurbjörnsdóttur um ómerkingu ummæla, sem Teitur hafði birt á bloggsíðu sinni, var vísað frá dómi.
Aðild hjónanna að kröfunni þótti fela í sér samlagsaðild lögum um meðferð einkamála.
Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar væri ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir slíkri aðild að hver kröfuhafi gerði sjálfstæða aðgreinda kröfu og varðaði frávísun máls af sjálfsdáðum væri það ekki gert. Þar sem hin sameiginlega og óaðgreinda kröfugerð hjónanna þótti ekki uppfylla framangreint skilyrði og þau hefðu ekki leiðrétt annmarkann, þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir Teits, þótti rétt að vísa kröfunni frá dómi af sjálfsdáðum.
Þá var Teitur sýknaður af kröfu Gunnlaugs um ómerkingu ummæla, sem Teitur hafði birt á bloggsíðu sinni. Þóttu ummælin, sem fælu í sér myndlíkingu og gildisdóm, ekki fela í sér aðdróttun samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var til stuðnings sýknu vísað til tjáningarfrelsis Teits, sem væri varið af 73. gr. stjórnarskrárinnar.
Frétt mbl.is um málið í héraðsdómi