Tekist á um þjóðaratkvæðagreiðsluna

Borgarstjórn Reykjavíkur á fundi.
Borgarstjórn Reykjavíkur á fundi. mbl.is

Á borgarstjórnarfundi í gærkvöldi var tekin fyrir tillaga vegna framkvæmdar þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að afgreiðslu tillögunnar yrði frestað til næsta fundar þar sem ótækt væri fyrir borgarstjórn að annast atkvæðagreiðsluna vegna óvissu um lögmæti hennar.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að með því  væri einkum átt við hvernig staðið var að ákvörðun um kjördag sem ólíklegt er að standist formskilyrði laga. Auk þess væri tillagan í raun ótæk vegna ófullnægjandi upplýsinga en í hana vantar upplýsingar um kostnað vegna málsins sem mun a.m.k. hlaupa á tugum milljóna króna. Var fundinum frestað um stund á meðan reynt var að útvega upplýsingar.

 Þegar fundi var fram haldið, kom í ljós að ekki hafði tekist að ná í þær upplýsingar um kostnað vegna atkvæðagreiðslunnar sem beðið var um, segir Kjartan.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins felld

„Lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þá fram eftirfarandi tillögu vegna málsins, sem felld var með atkvæðum meirihlutans. Eru þau vinnubrögð með ólíkindum að slík tillaga um fjárheimild sé samþykkt í borgarstjórn án þess að nokkrar upplýsingar liggi fyrir, um hve háa upphæð sé að ræða,“ segir Kjartan.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins: Lagt er til að afgreiðslu 7. liðar, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, verði frestað til næsta fundar borgarstjórnar í ljósi þess að borgarstjóri hefur ekki getað upplýst borgarstjórn um kostnað við atkvæðagreiðsluna. Þá ríkir óvissa um hvort kjördagur vegna umræddrar atkvæðagreiðslu standist formskilyrði laga.

Eftir að tillagan hafði verið felld, var gengið til atkvæða um upphaflegu tillöguna, sem snertir framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Var hún samþykkt af borgarfulltrúum meirihlutans en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tóku ekki þátt í atkvæðagreiðslunni og bókuðu eftirfarandi.

Bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Svokölluð ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla hefur verið auglýst 20. október nk. Er þá ætlunin að beita í fyrsta sinn ákvæðum nýlegra laga um það efni og því enn mikilvægara en ella að vanda svo til verka að hvorki vakni spurningar né efasemdir um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Komið hefur í ljós að svo illa hefur verið staðið að undirbúningi atkvæðagreiðslunnar af hálfu þingmeirihlutans á Alþingi að ólíklegt er að hún fullnægi formskilyrðum laga. Þá verður ekki annað séð en að innanríkisráðherra hafi farið út fyrir valdheimildir sínar með því að boða til atkvæðagreiðslunnar á ákveðnum degi án fullnægjandi heimildar Alþingis. Óviðunandi er að borgarstjórn Reykjavíkur annist og beri ábyrgð á framkvæmd atkvæðagreiðslu, sem mikil óvissa ríkir um hvort samræmist gildandi lögum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka því ekki þátt í atkvæðagreiðslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Heimir Lárusson Fjeldsted: Fúsk
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert