Verða að samþykkja löggjöf ESB

Norden.org

Það eru slæmar fréttir að ekki hafi tekist að ná samkomulagi í makríldeilunni á ráðherrafundi í byrjun þessa mánaðar og staðfestir sú niðurstaða enn frekar en áður þörfina á því að beita Íslendinga refsiaðgerðum fyrir að taka ekki þátt í ábyrgri stjórn veiða úr fiskistofninum og tryggja þannig sjálfbærni hans til lengri tíma. Þetta segir formaður sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins, Gabriel Mato, í samtali við mbl.is.

„Það er óheppilegt að eftir deilur í þrjú ár á milli Evrópusambandsins og Noregs annars vegar og Íslands og Færeyja hins vegar haldi tvö síðarnefndu ríkin áfram að krefjast meiri aflaheimilda en sem nemur sögulegum veiðum þeirra og þvert á vísindalega ráðgjöf,“ segir Mato og bætir því við að óviðunandi sé að Íslendingar og Færeyingar hafi að engu hagsmuni annarra strandríkja á svæðinu og þar með talið Evrópusambandsins.

Kominn tími fyrir refsiaðgerðir

„Þessi staða er óásættanleg og þar sem málið snertir hagsmuni nokkurra ríkja Evrópusambandsins er nauðsynlegt að gripið sé þegar til aðgerða til þess að binda endi á þessa ósanngjörnu og gerræðislegu framkomu,“ segir Mato ennfremur og bætir því við að Írland, Spánn, Frakkland, Holland, Belgía og Bretland hafi farið fram á það í ráðherraráði Evrópusambandsins að gripið yrði til aðgerða gegn Íslandi.

Mato segist sem formaður sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins fullkomlega sammála írska Evrópuþingmanninum Pat Gallagher í skýrslu hans um málið þar sem segi að kominn sé tími til þess að grípa til refsiaðgerða. Fyrir vikið sé hann mjög ánægður með að Evrópuþingið skuli hafa samþykkt 12. september síðastliðinn lagasetningu sem heimili að gripið sé til slíkra aðgerða. Nú hafi Evrópusambandið viðeigandi tæki í höndunum til þess að taka á málum eins og makríldeilunni.

Sjávarútvegskaflinn skiptir sköpum

„Við gerum okkur grein fyrir því að viðræður um inngöngu Íslands í Evrópusambandið eru nú í gangi. Sjávarútvegskaflinn skiptir að mínu mati sköpum í þeim efnum. Íslendingar verða að samþykkja og virða löggjöf sambandsins í sjávarútvegsmálum en ég er ekki viss um að þeir séu reiðubúnir að gera það enn sem komið er,“ segir Mato að lokum, spurður að því hvaða áhrif makríldeilan kunni að hafa á umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka