Ítrekaðar atlögur hafa verið gerðar að vinnuumhverfi heimilislækna frá hruni og þurfa þeir að vera í stöðugri vörn. Lækkun á launum þeirra frá vorinu 2009 hefur ekki gengið til baka og þeim bjóðast 4-6 sinnum hærri laun í Noregi. Læknar sitja nú á fundi um launakjör og ástandið í heilbrigðiskerfinu.
Tilefni fundarins er launahækkun sem velferðarráðherra bauð forstjóra Landspítalans í ágúst, en hann ákvað að hafna í gær. Almennrar óánægju gætir meðal lækna og má heyra á framsögum og umræðum á fundinum að þeir telji að kominn sé tími á breytingar.
Gunnlaugur Sigurðsson heilsugæslulæknir flutti fyrstu framsöguna á sameiginlegum félagsfundi Félags almennra lækna og Læknafélagi Reykjavíkur í kvöld. Hann sagði hætt við því að Noregur og Svíþjóð gætu tekið við öllum íslenskun heilsugæslulæknum á einu bretti, og jafnvel oftar en einu sinni.
Gunnlaugur nefndi dæmi af sjálfum sér þegar hann flutti aftur heim til Íslands eftir störf á heilsugæslu í Noregi. Við þann flutning lækkaði hann í dagvinnulaunum um 70% og var það þó fyrir nokkrum árum þegar gengismunur var minni en nú. Gunnlaugur sagði að laun heilsugæslulækna í Noregi væru 4-6 sinnum hærri en hér. „Því er ekki furða þótt Skandinavía heilli, þar sem hægt er að vinna helmingi minna og hafa helmingi hærri laun,“ sagði Gunnlaugur.
Hann benti þó á að það væri meira en launin ein sem toguðu íslenska lækna burt frá landinu. Mjög margir íslenskir læknar hafi fullmenntað sig í Skandinavíu, hafi þar lækningaleyfi og tengslanet. Þar hafi þeir kynnst öðrum og betri aðbúnaði en hér sé við lýði. Eftir þá reynslu séu þeir síður ánægðir þegar og ef þeir snúa til baka enda kjósi margir nú að gera það ekki enda mikil eftirspurn eftir þeim úti. „Það er spurning hvort við séum ekki farin að mennta heimilislækna fyrir útlönd,“ sagði Gunnlaugur.