Ráðherranefnd sem falið var að fjalla um fjárfestingar Huangs Nubos á Grímsstöðum á Fjöllum hefur ekki kallað eftir neinum upplýsingum frá Huang um áformin og ekkert rætt við starfsmenn hans hér á landi. Alls óvíst er hvenær nefndin lýkur störfum.
Huang sagði í samtali við kínverska blaðið China Daily að samningar um leigu á landi á Grímsstöðum væru tilbúnir og að hann reiknaði með að samningar yrðu undirritaðir í næsta mánuði. Í framhaldi yrði efnt til blaðamannafundar þar sem áformin yrðu kynnt. Haft er eftir Huang að Íslendingar vilji fá að vita hvað hann ætlaðist fyrir á Grímsstöðum.
Halldór Jóhannsson, talsmaður Huang Nubo hér á landi, segir að Huang hafi vonast eftir að þetta mál myndi klárast í október, enda hafi verið talað um það í upphafi. Hann segir að vinnan með sveitarfélögunum hafi gengið vel og það lægju fyrir óundirritaðir samningar við þau. Ef skrifað verði undir eitthvað verði það gert með fyrirvara um samþykki ríkisins. „Það er ekki búið að tímasetja neitt slíkt. Þetta eru getgátur,“ segir Halldór um fréttina.
Fjórum ráðherrum var fyrr á þessu ári falið að fara yfir þetta mál. Í henni sitja Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra og Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra.
„Við höfum ekkert verið kallaðir fyrir ráðherranefndina eða fengið frá þeim neina beiðni um upplýsingar. Það var kynnt að menn þyrftu að fá svör við einhverjum spurningum, en það er mjög sérkennilegt að nefndin hefur ekki leitað til okkur eftir þeim svörum. Þeir hafa ekki kallað okkur fyrir, sent bréf eða tölvupóst,“ segir Halldór.
Huginn Þorsteinsson, aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar, segir að ráðherranefndin hafi átt nokkra fundi um þetta mál og hún sé ekki búin að ljúka störfum. Huginn segir að enginn samningur um þetta mál hafi verið kynntur fyrir ráðherranefndinni og engin drög að samningi heldur.
Huginn segir að nefndin hafi fjölþætt hlutverk. Hún hafi verið sett á laggirnar vegna kröfu um að farið yrði rækilega yfir þetta mál til að kanna hagsmuni ríkisins. Ríkið sé stór landeigandi þarna. Nefndin hafi átt að skoða hvers konar áform séu þarna uppi, m.a. með hliðsjón af því að stutt sé í Vatnajökulsþjóðgarð. Einnig hafi nefndin viljað fá upplýsingar um forsendur fjárfestingaáformanna.
„Nefndin hefur fundað nokkrum sinnum og hefur hitt aðila og kallað eftir upplýsingum, en það er eitthvað í það að hún skili af sér,“ segir Huginn.
Huginn segir að nefndin hafi fengið allar þær upplýsingar sem hún hafi beðið um, m.a. um forsendur fjárfestinganna og fleiri. Skortur á upplýsingum tefji því ekki störf nefndarinnar. „Að lokum er þetta pólitískt mat,“ segir Huginn. Hann segist ekki vita hvenær nefndin ljúki störfum, en hann reiknar með að hún haldi nokkra fundi til viðbótar.
Halldór segir að upplýsingar um forsendur fjárfestinga Huang séu ekki komnar beint frá honum, en hins vegar kunni að vera að ráðherranefndin hafi fengið upplýsingar frá nefnd um erlendar fjárfestingar sem fjallaði um umsókn Huang á sínum tíma.
Samningar Huang við sveitarfélögin ganga út á að hann leigi land undir hótel á Grímsstöðum, en að landið sjálft verði í eigu félags í eigu sveitarfélaganna.