„Hvað hafa menn verið að kalla þetta hér á Íslandi? Er þetta ekki markaðsmisnotkun? Að halda óeðlilega uppi verði skuldabréfa eða hlutabréfa?“ spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í umræðum á Alþingi í morgun um skýrslu Seðlabanka Íslands um valkosti Íslendinga í gjaldmiðlamálum ef krónan yrði aflögð.
Vísaði hann þar til þess að Evrópski seðlabankinn hefði lýst því yfir að hann ætlaði að kaupa eins mikið og þyrfti af skuldum verst settu evruríkjanna í því augnamiði að reyna að leysa úr efnahagserfiðleikum evrusvæðisins og ennfremur „taka nánast hvaða tryggingar sem er hjá illa stöddum bönkum í Evrópu.“
Spurði Sigmundur ennfremur hvað þeim fyndist um þessi áform Evrópska seðlabankans sem talað hefðu mikið „um það sem þeir kalla gjaldþrot Seðlabankans, að Seðlabanki Evrópu skuli nú hafa gert það að stefnu sinni að fara að taka við nánast hvaða veðum sem er frá illa stöddum bönkum. Vilja Íslendingar taka þátt í að fjármagna það?“
Þá sagðist Sigmundur sakna þess að í skýrslunni væri fjallað nánar um þann möguleika að taka með tvíhliða hætti upp annan gjaldmiðil og benti ennfremur á að sá árangur í efnahagsmálum sem ríkisstjórnin státaði sér af varðandi til að mynda atvinnuleysi og hagvöxt samanborið við ýmis Evrópuríki væri mögulegt vegna þess að Ísland væri með krónuna sem gjaldmiðil sinn en evruríkin með evru.